Skoðun

Í gíslingu Ríkis­lög­manns, sam­tryggingar og spillingar

Ásthildur Lóa Þórsdóttir skrifar

Þú átt ekki sjens ef ríkið, „kerfið“, brýtur á þér. Það er hin einfalda staðreynd málsins.

Fyrir bankahrunið 2008 og glæpina sem framdir voru í kjölfarið, trúði ég á Ísland.

Ég trúði á kerfið okkar og að þó að margt mætti betur fara, þá byggi ég í réttarríki þar sem mannréttindi væru virt.

Sú trú hefur verið tekin af mér ásamt svo mörgu öðru á þessum árum sem liðið hafa.

Ég held að við búum í einu spilltasta ríki heims. Eina ástæðan fyrir því að það mælist ekki er að það byggir ekki á (beinum) mútum, en samtrygging hinna fáu, valdamiklu og ríku, er allsráðandi og þræðir þeirra liggja út um allt.

Sem betur fer þurfa hlutfallslega fáir að leita til dómsstóla með sín mál og aldrei í lífinu hélt ég að ég yrði ein af þeim sem þyrfti að berjast gegn því að „kerfið“ fengi að brjóta á mér og vaða yfir mig og mín réttindi á skítugum skónum, án þess að ég fengi rönd við reist.

Við hjónin ákváðum að berjast og það hefur verið ótrúleg vegferð sem vonandi fer að sjá fyrir endann á en við höfum aldrei hlotið áheyrn eða réttlæti í okkar málum og höfum ávæning af því að talað sé um okkur „á kaffistofum“ sem e.k. erfiða einstaklinga sem eigi ekkert gott skilið.

Hvort það er satt eða ekki þá benda þær málsmeðferðir sem við höfum hlotið og „bull – af því bara“ úrskurðir, sterklega til þess að svo sé.

Það er gríðarlega alvarlegt mál að „kerfið“ skuli taka sig saman um að brjóta á einstaklingum sem neita að beygja sig og sætta sig við augljós brot þess gegn þeim.

Það er gríðarlega alvarlegt mál því þjóðfélag sem brýtur á þegnum sínum í gegnum spillta embættismenn í spilltu „kerfi“ stendur á brauðfótum.

Eftir reynslu síðustu ára tel ég mig geta fullyrt að réttlæti er bara fyrir hina ríku og valdamiklu.

  • Sýslumenn eru eins og afgreiðslustofnanir fyrir bankana og huga ekkert að réttindum einstaklinga.
  • Ég get nefnt mína sögu og fjölmargra annarra sem dæmi og svo skjóta öðru hverju upp kollinum í fréttum alvarleg atvik eins og í Reykjanesbæ í fyrra. Það var sko ekki fyrsta fasteignin sem seld var fyrir „smápeninga“ á uppboði. Þær skipta þvert á móti hundruðum.
  • Dómstólar hafa tekið afstöðu með ríkinu og fjármálastofnunum og dæma aldrei samkvæmt lögum um neytendarétt í málum gegn þeim. Hinir fjársterku og valdamiklu njóta alltaf vafans, sem ætti í raun alltaf að falla með einstaklingum, enda er aðstöðumunurinn gígantískur.

Þetta „litla mál“ okkar hjóna sem hér er gefin smá innsýn í snýst ekki bara um okkur hjónin og réttlæti okkur til handa. Þó við viljum að ríkið bæti okkur þær 10,7 milljónir sem það stal af okkur og gaf Arion banka, snýst þetta mál um svo miklu meira en það.

Það snýst t.d. um hvernig þjóðfélag við viljum og hvort allir séu jafnir fyrir lögum, eða hvort sumir séu kannski mikið jafnari en aðrir.

Baráttan um að fá afhent tvö skjöl hefur tekið 15 mánuði

Ríkislögmaður hefur neitað að afhenta skjöl sem skipta máli fyrir vörn okkar hjóna í dómsmáli í eitt ár og þrjá mánuði. Við sendum inn formlega ósk um afhendingu gagnanna snemma í mars á síðasta ári og neitun ríkislögmanns barst svo þann 19. maí 2023.

Afleiðing þess er sú að dómsmáli okkar gegn ríkinu hefur ítrekað verið frestað og nú síðast í maí á þessu ári um ótiltekin tíma og engin virðist geta gert neitt í því. Ríkislögmaður hyggst einfaldlega ekki láta gögnin af hendi þó engin rök séu fyrir þeirri afstöðu hans, og hann bara má það.

Málaferlin snúast í stuttu máli um það að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu braut á okkur við úthlutun eftir uppboð og gaf Arion banka þannig 10,7 milljónir af okkar fé.

Málið er í eðli sínu einfalt og um það má lesa í þessari grein en baráttan við að fá ríkislögmann til að láta þessi skjöl af hendi, hefur núna staðið frá því í mars í fyrra.

Svona virkar samstaða „kerfisins“ gegn fólkinu

Réttarríkið Ísland stendur á brauðfótum og þessi litla saga um tvö skjöl sýnir fram á það.

Þann 22. febrúar 2023 sendi lögfræðingur okkar kröfu á Ríkislögmann vegna þess skaða sem brot sýslumanns höfðu sannanlega valdið okkur. Vandaðri greinagerð lögmanns okkar var svarað með 12 línum þar sem Ríkislögmaður hafnaði kröfu okkur, meðal annars með vísan í álit sem hann hefði fengið frá bæði dómsmálaráðuneytinu og Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Við fórum fram á að sjá þessi álit í mars og þá byrjaði ballið fyrir alvöru:

  • Þann 19. maí hafnaði ríkislögmaður þeirri beiðni okkar með vísan í persónuverndarlög.

Sú röksemdarfærsla stenst enga skoðun því þessi skjöl fjalla bara um okkur og okkar persónulega mál og augljós réttur okkar til að sjá þau.

  • Við áfrýjuðum til Úrskurðanefndar um upplýsingamál í 28. júní 2023

Það getur ekki talist flókið að úrskurða um rétt okkar til að sjá tvo tiltekin skjöl en þetta hefur þó vafist svo fyrir Úrskurðarnefndinni, að það tók hana 363 daga að hnoða saman úrskurði, þrátt fyrir að eftir því hafi verið gengið, m.a. af Umboðsmanni Alþingis, en nánar um það síðar.

  • 20. desember 2023 sendum við kvörtun til Umboðsmanns Alþingis

Þarna höfðum við beðið í hálft ár og vorum orðin langeyg eftir úrskurði.

  • Svar berst frá Umboðsmanni Alþingis í 18. janúar 2024

Í svari Umboðsmanns Alþingis sagðist hann ekki telja ástæðu til að aðhafast því samkvæmt upplýsingum nefndarinnar hefðu 16 mál tekið lengri tíma hjá henni en okkar og að það myndi koma úrskurður í lok febrúar.

Það vekur óneitanlega furðu að UA skuli taka gilt að fyrst 16 mál hafi tekið lengri tíma en okkar, þá sé þetta í lagi því það felur í sér leyfi til opinberra aðila að passa upp á að taka sér langan tíma í einhverjum málum, til að geta vísað í það síðar. Auk þess vitum við ekkert um umfang þeirra mála sem um ræðir. Ef þau snerust um jafna augljósan og lögvarinn rétt borgara til að fá skjöl sem þessi í hendurnar, hlýtur að þurfa að velta fyrir sé hæfi þessarar nefndar til að fjalla um nokkur mál sem á hennar borð koma.

Annað er að nefndinn fann sér greinilega tíma til að svara UA og finna mál sem tekið hafa lengri tíma, en hafði samt ekki fundið sér tíma til að úrskurða í þessu einfalda máli.

Febrúar leið og nær fjórir mánuðir í viðbót, án þess að svar bærist.

  • Önnur kvörtun send til Umboðsmanns Alþingis þann 4. mars

Þarna var fresturinn sem Úrskurðarnefndin tiltók sjálf, liðinn og farið að styttast í fyrirtöku fyrir dómstólum.

UA sinnti ekki þessari kvörtun og því var ekki annað að gera en að taka þennan slag fyrir dómi, sem við hefðum aldrei átt að þurfa að gera.

  • Málið gegn ríkinu var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 12. mars

Fyrir dómnum var lögð fram bókun og skorað á ríkislögmann að leggja fram umsagnirnar frá Sýslumanninum á höfuðborgasvæðinu og dómsmálaráðuneytinu.

Lögmaðurinn sem kom fram fyrir hönd ríkisins sagðist þá ætla að kanna hvort Ríkislögmaður gæti orðið við beiðninni(!) og málinu var frestað til 10. apríl.

  • Þann 8. apríl var fyrirtöku málsins fyrir dómi frestað til 15. maí

Af því að Ríkislögmaður var ekki enn búin að afhenda gögnin var fyrirtökunni einfaldlega frestað. Það var ekki einu sinni nóg að fara fram á þetta fyrir dómi. Dómarinn úrskurðaði ekki og Ríkislögmaður komst upp með að afhenda ekki skjölin. Næsta fyrirtaka var því áætluð 15. maí.

  • Ríkislögmaður kemst upp með að afhenda ekki skjölin

Þann 17. maí barst okkur eftirfarandi póstur frá okkar lögmanni:

„Í ljósi þess að niðurstaða liggur enn ekki fyrir hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur dómsmálinu verið frestað ótiltekið. Ríkislögmaður hyggst ekki leggja gögnin fram. Um leið og niðurstaða liggur fyrir og eftir atvikum gögnin berast, upplýsi ég dómara og fyrirtaka verður sett á dagskrá. Við getum ekki lýst gagnaöflun lokið í ljósi aðstæðna og þar af leiðandi er þetta eina leiðin. Vonandi fara hlutirnir að skýrast en úrskurðarnefndin átti að upplýsa umboðsmann Alþingis um stöðuna hinn 7. maí sl. Við bíðum enn eftir UA.“

  • Úrskurður Úrskurðanefndar um upplýsingamál berst loksins 26. júní 2024

Þessi úrskurður sem tók nákvæmlega heilt ár (mínus tvo daga) að ná fram, er mikil orðasúpa um lítið. Í stuttu máli kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að Ríkislögmaður þurfi ekki að afhenda okkur álit dómsmálaráðuneytisins eða Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, en eigi hins vegar að afhenda okkur fylgiskjöl sem fylgdu áliti sýslumanns.

Kannski má líta á það sem ákveðinn sigur að fá úrskurð um að eiga rétt á fylgiskjölunum, en við vorum ekki að biðja um þau enda eigum þau öll hvort sem er.

Það voru röksemdafærslur fulltrúa ríkisins, dómsmálaráðuneytisins og sýslumanns, sem Ríkislögmaður byggði útskurð sinn gegn okkur á, sem við vorum að sækjast eftir og við teljum, þrátt fyrir þennan úrskurð, að við eigum fullan rétt á að fá í hendur.

Samtrygging og spilling

Hið svokallaða „kerfi“ hefur gleymt fyrir hverja það á að vinna. Háttsetta „andlitslausa“ fólkið sem getur með ákvörðunum sínum haft gríðarlega mikil áhrif á líf, afkomu og heilsu einstaklinga, virðist hafa misst sjónar á þeim einföldu sannindum að „kerfið“ er fyrir fólkið og að án fólksins í landinu, væri engin þörf fyrir „kerfið“.

Hinir andlitslausu embættismenn virðast líta á það sem sitt æðsta hlutverk að verja „kerfið“ fyrir óþægilegu fólki, sem leyfir sér að kvarta þegar brotið er á því.

Í stað þess að „kerfið“ leggi sig fram um að leiðrétta mistök því mistök geta jú alltaf átt sér stað, gerir það mistökin að ásetningsbrotum, með því að neita að kannast við þau og verja með öllum ráðum, alveg sama hvaða skaða það er að valda einstaklingunum sem „kerfið“ á að vinna fyrir.

Í málinu sem hér um ræðir gerði sýslumannsfulltrúi mistök við úthlutun eftir uppboð. Þegar honum var svo bent á að hann hefði gleymt að taka tillit til fyrningar vaxta upp á 10,7 milljónir, eins og honum bæri að gera, hefði sýslumaður einfaldlega getað leiðrétt þessi mistök sín og málið hefði verið búið. En hann gerði það ekki. Þvert á móti sagði hann að ef við værum ekki sátt gætum við höfðað mál, sem við og gerðum.

Það var þá sem „kerfið“ fór í vörn og sló hlífiskildi um sýslumannsfulltrúa sem ekki hafði unnið vinnuna sína og með því brotið gróflega á réttindum gerðarþola. Hann hreinlega gaf Arion banka 10,7 milljónir af peningum gerðarþola og það brot hans vörðu dómstólar, „kerfið“, með lygum og undanskotum í gegnum öll réttarúrræði á Íslandi:

  • Landsréttur hreinlega laug í dómsorði með því að vísa frá málsástæðunni um fyrningu vaxta með því að segja að hún hefði ekki komið fram nógu snemma, þó að fyrning vaxta hefði verið eina málsástæðan frá upphafi.
  • Hæstiréttur tók ekkert efnislega á fyrningu vaxta heldur hafnaði málskotsbeiðninni sem gerði að verkum að það fékkst aldrei úrlausn á æðra stigi til að leiðrétta þá rangfærslu Landsréttar að málsástæðan um fyrningu vaxta hefði komið of seint fram. Þrátt fyrir að samkvæmt lögum eigi Hæstiréttur einmitt að geta veitt kæruleyfi ef dómur Landsréttar er bersýnilega rangur.
  • Endurupptökunefnd lá svo á málinu í rúma níu mánuði (þó að einn dómarinn í Landsrétti væri ólöglegur sem hefði átt að nægja til tafarlausrar endurupptöku) þangað til að Arion banki setti það sem skilyrði að endurupptökukrafan þar væri dregið til baka þegar við náðum (nauðar)samningum við hann um að bjarga því sem bjargað varð. Sá úrskurður kom því aldrei.

ALDREI, aldrei nokkurn tímann í þessu ferli, var úrskurðað um einu málsástæðuna, fyrningu vaxta.

Ef dómstólar hefðu gert það hefðu þeir bara getað úrskurðað á einn veg, okkur í hag, sem var gegn hagsmunum þeirra sem þeir vinna fyrir, þannig að þeir einfaldlega töluðu bara um eitthvað annað og/eða lugu.

„Kerfið“ var í vörn og þá var hagsmunum okkar fórnað um leið og lögum og rétti var sturtað niður eins og hverjum öðrum skít, því ALLIR sem að þessu komu vita vel að það er ekki hægt að deila um hvort vextir eru fyrndir eða ekki. Það er einfaldlega spurning um dagsetningar, ekkert annað.

Auk þess er líka kristaltært að sýslumanni ber að eigin frumkvæði, að taka tillit til fyrningar vaxta við úthlutun eftir uppboð, auk þess að sem honum ber að gæta réttinda gerðarþola.

Hann gerði augljóslega hvorugt.

Látum vera að hann hafi gleymt frumkvæðisskyldu sinni, en þegar hann neitar einnig að athuga málið þegar honum er sýnt fram á að mistök hafi átt sér stað, erum við farin að ræða eitthvað allt annað. Þá er þetta ekkert annað en einbeittur brotavilji og algjört skeytingarleysi gagnvart hagsmunum gerðarþola, hverra hagsmuna hann ber að gæta.

Fyrir ÞETTA hafa dómarar á öllum dómsstigum gert sjálfa sig að fíflum og málpípum spillingar.

Fyrir ÞETTA ættu allir þeir dómarar sem að þessu hafa komið að segja af sér, því þetta er brot gegn réttarríkinu og ef dómarar spila með svona spillingu í „litlum“ málum sem þessum, hvernig er þeim þá treystandi í stærri málum.

Þessir dómarar eru einfaldlega ekki hæfir til starfa.

Er Ríkislögmaður að vísa í raunveruleg skjöl?

Ég er sannfærð um að það þessi skjöl séu ekki til, eða þá í besta falli í algjöru skötulíki.

Alveg sama hvernig ég velti því fyrir mér get ég ekki séð hvað dómsmálaráðuneytið og Sýslumannsembættið hafi fram að færa sér til varnar.

Það eina sem þessir aðilar geta vísað í eru annars vegar fyrrnefndir dómar þar sem aldrei var úrskurðað um fyrningu vaxta eða lögin sem við erum saka sýslumann um að hafa brotið.

Málatilbúningur Ríkislögmanns byggir t.d. annarsvegar allur á því að svona séu lögin og þannig gengið út frá því að þeim hafi verið fylgt, sem er algjörlega fáránlegur málflutningur sérstaklega með tilliti til þess að okkar mál byggist einmitt á því að það hafi ekki verið gert og svo hins vegar á því að dómar hafi fallið í máli okkar vegna fyrndu vaxtanna, þó ekki liggi fyrir einn einasti úrskurður um þá.

Í mínum huga kemur þannig tvennt til greina:

  1. þessi skjöl hafa aldrei verið til
  2. þau eru það „léleg“ að það væri þessum stofnunum til skammar að birta þau

Til að gæta fullrar sanngirni byggir Ríkislögmaður líka á því að málið sé fyrnt, því það eru augljóslega meira en fjögur ár síðan úthlutun var gerð í janúar 2017.

Við því er tvennt að segja:

  • Málaferlin stóðu í heil tvö ár og sem dæmi um „tafir“ kerfisins sem éta upp þannig tíma má nefna 10 mánuði hjá Endurupptökunefnd. Þannig að við vorum ekki aðgerðarlaus heldur tæmdum öll réttárúrræði á Íslandi.
  • Brotið gegn okkur var ekki „fullkomnað“ fyrr en 19. desember 2019 þegar við sömdum við Arion banka og beygðum okkur nauðbeygð undir það að draga málið hjá Endurupptökunefnd til baka. Það á að sjálfsögðu að telja frá þeim tíma og erindi var sent til Ríkislögmanns í mars 2023 og mál höfðað fyrir dómstólum um haustið. Það er innan fjögurra ára.

Fjögur ár er ótrúlega skammur tími í svona baráttu ekki síst þegar litið er til þess hvernig „kerfið“ getur hreinlega gert það að leik sínum að tefja mál og þreyta einstaklinginn eins og lax á stöng, en hvernig sem á það er litið, þá stendur eftir að brotin gegn okkur voru framinn og ríkið/“kerfið“ á ekki að sleppa undan afleiðingum þess á tæknilegu lagaatriði.

Hverjar eru líkurnar á sigri?

Það fer ekkert á milli mála að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu braut lög og sinnti ekki lögboðnum skyldum sínum við úthlutun söluandvirðis eignar okkar eftir uppboð.

Því verður ekki breytt með orðskrúði, lagatækni, eða nokkru öðru og samkvæmt því eigum við sigur vísan í þessu máli.

En við höfum ekki enn þá sé dómara dæma að lögum í okkar málum svo vandi er um slíkt að spá.

Við höldum samt dauðahaldi í vonina á sama tíma og við búum okkur undir það versta, jafnvel að hnífnum verði snúið í sárinu og við dæmd til að greiða kostnað ríkisins ofan á allt hitt.

Því við höfum nú þegar fundið refsivönd „kerfisins“ á okkar skinni og höfum reynt frá fyrstu hendi að venjulegt fólk á ekki sjens ef „kerfið“ eða fjármagnið brjóta á þér.

Á hvaða leið er þannig þjóðfélag?

Höfundur þingmaður Flokks fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×