Skoðun

Er Evrópa að hverfa af kortinu?

Guðmundur Einarsson skrifar

„Evrópa getur dáið og við ráðum örlögum hennar“, sagði Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, í ræðu í Svartaskóla í París 27. apríl sl.

Var þetta ekki fulldjúpt í árinni tekið hjá Macron? Er ekki óþarfi að vera svona dramatískur?

Þetta var herhvöt forsetans. Hann var að kalla menn til vopna. Ekki einungis sitt eigið fólk, heldur alla íbúa landa Evrópusambandsins. Hann var að undirstrika mikilvægi kosninganna til Evrópuþingsins sem fram fara 6. til 9. júní, og fréttaskýrendur telja þær þýðingarmestu í næstum hálfa öld.

Fyrstu alþjóðlegu kosningar sögunnar

Almennar kosningar til þingsins voru fyrst haldnar 1979 og voru fyrstu alþjóðlegu kosningar sögunnar. Aðildarlöndin voru aðeins 9 og fram að því höfðu ríkisstjórnir þeirra valið þingmenn til setu. Þingið skipti sáralitlu máli og einhugur ríkti í stórum dráttum um framtíðina.

Nú er öldin önnur. Meðlimalöndin eru orðin 27 og til viðbótar hefur næstum tugur óskað inngöngu. Á kjörtímabilinu, sem að líða, skellti Bretland hurðum og fór. Innan hópsins eru deilur um hvert skuli halda því sum löndin vilja minnka áhrif sambandsins á innanríkismál.

Innflytjendamálin voru undirrótin að Brexit. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun fyrirtækisins Statista (maí 2024) telja 55% Breta nú að ákvörðunin um útgöngu hafi verið röng. Einungis 31% styðja hana.

Innflytjendur eru enn helsti ásteitingarsteinninn í Evrópsku sambúðinni. Þversögnin er æpandi. Fólk vill ekki eignast nægilega mörg börn til að innlendar hendur nái að vinna verkin. Síðan gengur það af göflunum ef erlent vinnuafl hleypur í skarðið og nú kjósa Evrópubúar í auknum mæli flokka sem vilja koma í veg fyrir að „útlendingarnir“ komi.

Hvar á ég að sitja?

Á Evrópuþinginu eru rúmlega 700 þingmenn sem eru kosnir í aðildarlöndunum og skiptast á þau eftir íbúafjölda. Þýskaland er t.d. með 96 menn, Frakkland með 79, Svíþjóð hefur 21 og Danmörk 14.

Á þinginu raða menn sér í hópa eftir stjórnmálaskoðunum.

Hvernig gætu íslensku flokkarnir dregist þar í dilka ef svo ólíklega vildi til til að Ísland hætti að óttast Evrópusambandið og tæki fullan þátt í að gera góða Evrópu betri?

Fjölmennastir eru hægri-miðjumenn með 176 félaga á kjörtímabilinu sem er að ljúka. Þangað færi Viðreisn beina leið. Sjálfstæðismenn myndu setjast þar líka.

Næst stærsti hópurinn er sósíalistar og jafnaðarmenn. Hann telur nú 140 manns og þar gæti Samfylkingin fundið sæti eftir að hafa komið út úr skápnum og gengist við Evróputilhneigingum sínum.

Þriðji stærsti hópurinn er umbótasinnaðir miðjumenn. Þar eru 100 manns og líklega færi Framsóknarflokkurinn þangað þótt hann kæmi til Brussel með hálfum huga..

Græningjar eru næstir með 72 meðlimi og myndu vafalaust bjóða VG félagana velkomna.

Býr útlendingur hér?

Þá kemur röðin að tveimur fylkingum yst til hægri með um 70 manns hvor. Báðar nærast á andúð við innflytendur og báðar myndu taka við Miðflokknum.

Sigmundur Davíð gæti hins vegar fengið valkvíða við að kjósa á milli þessara tveggja hreyfinga ef hann hefði tíma frá mikilvægari verkefnum eins og herbergjaskipan og hurðarhúnum á Alþingi.

Sú fylkingin sem skorar lægra á öfgaskalanum af þessum tveimur kallar sig íhaldsaman endurbótaflokk og skartar fyrirmyndarfólki eins og þingmönnum Laga og réttlætis frá Póllandi og Bræðra Ítalíu, flokks Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu. Hún hóf feril sinn í æskulýðshreyfingu nýfasista og er andvíg innflytjendum, hjónaböndum samkynhneigðra og réttindum hinsegin fólks.

Hin fylkingin er skjól fyrir þá sem við góða fólkið köllum öfgafulla þjóðernissinna.

Þar er td. þýski flokkurinn AfD. Hann var upphaflega í hópnum hér að ofan, íhaldssömu endurbótamönnunum. Þeim ofbauð hinsvegar orðbragð og stefna Þjóðverjanna og vörpuðu þeim á dyr.

Þeir þýsku slógust þá í lið með frönsku Þjóðfylkingunni sem er fjölskyldufyrirtæki Jean-Marie Le Pen.

Jean-Marie Le Pen stýrði fylkingunni áratugum saman. Hann var hatrammur í garð innflytjenda og verulega umdeildur. Árið 2011 tók dóttir hans, Marine Le Pen, við stjórninni. Hún vann markvisst að því að fegra ásýnd flokksins og rak föður sinn fjórum árum síðar. Og árið 2022 fór hún í hvarf og nýr og sprækur formaður, Jordan Bardella, tók við forystunni.

Hver er við dauðans dyr

En af hverju var Macron að ýja að því að Evrópa væri jafnvel við dauðans dyr? Kannski hefur hann áhyggjur af eigin framíð.

Macron var fyrst og fremst að brýna sína eigin liðsmenn.

Í nýlegri skoðanakönnun IPSOS fyrirtækisins í Frakklandi var framboðslisti Þjóðfylkingar Le Pen til Evrópukosninganna langefstur með 32% en listi flokks Macrons var hálfdrættingur með aðeins 17%.

Í þriðja sæti voru sósíalistar með 14%. Þar var hinsvegar efstur á blaði rísandi stjarna í franskri pólitík, Raphael Glucksman. Við skulum fylgjast vel með honum.

Þar fyrir neðan minnti upptalningin svolítið á íslensku forsetakosningarnar; 15 listar með allt frá 7% og niður í 0.2%. Sannkölluð „lýðræðisveisla“. Kannski ættum við að benda Frökkunum á að hækka þröskuldinn.

Miðjan mun halda

En þótt Macron fari á taugum er ekki þar með sagt að Evrópa sé að fara til andskotans.

Á Evrópuþinginu hefur löngum ráðið meirihluti flokkanna á miðjunni á pólitíska litrófinu. Á þinginu sem er að ljúka eru það hægri miðjumenn (176), sósíalistar og jafnaðarmenn (140) og umbótasinnaðir miðjumenn (100). Og stundum hafa Græningjar komið til hjálpar. Þótt flokkarnir yst til hægri muni örugglega vinna talsvert á, er almennt reiknað með að miðjan muni halda.

En næsta kjörtímabil verður vafalaust tími mikilla sviptinga.

Þótt miðjan haldi á Evrópuþinginu, mun velgengni öfgahægriflokka blása þeim í brjóst heima fyrir og hafa pólitísk áhrif og auka spennu milli ESB landanna í Evrópusamstarfinu. Það mun bitna á málaflokkum eins og umhverfismálum og réttindum minnihlutahópa.

Daðrað í biðsalnum

ESB hefur ekki tekið inn ný lönd í áratug og er enn með harðsperrur eftir átökin í síðustu stækkun.

Á austurjaðri Evrópusambandsins eru hins vegar 9 lönd sem hafa stöðu „umsóknarlanda“, þ.e. ESB hefur samþykkt að þau megi sækja um aðild. Þau hafa gengið til spurninga hjá sambandinu í mörg ár, og eru orðin óþolinmóð.

Á sama tíma færir Pútin Rússlandsforseti sig sífellt upp á skaftið í austurhlutanum með góðu eða illu. Stríðið í Úkraínu minnir á það á hverju kvöldi. Hann kyndir undir óeirðum í Georgíu, sem er umsóknarland og hann á í pólitísku ástarsambandi við Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.

Evrópulöndin voru búin að gleyma því að þau þyrftu að leggja eitthvað af mörkum til að verja sig sjálf. Það þurfti ruglukollinn Donald Trump til að vekja þau upp af værum blundi með því að hóta að hætta stuðningi við þau í NATO.

Hverfur Evrópa af skerminum?

Í lok langs dags á ráðstefnu í Peking fyrir mörgum árum kom ég upp á hótelherbergi, fór í sturtu, lagðist ofan á rúmið, krosslagði fæturna og kveikti á sjónvarpinu við fótagaflinn. Á CNN var stillimynd sem sýndi Asíu.

Ég renndi augunum yfir álfuna, frá Kína og yfir til Rússlands en fann ekki Evrópu. Stóra táin á vinstra fæti skyggði nefnilega á hana.

Nú eru stórveldin í austri farin að taka sér aukið pláss. Vaxandi átök eru á milli Kína og Bandaríkjanna á sviði stjórnmála og viðskipta. Það er ekki sjálfgefið að Evrópa haldi sínum hlut í þeim stympingum. Hún mun þurfa á öllu sínu að halda og öll ríkin verða að ganga í takt. Annars gæti hún horfið af skerminum.

Allt þetta hélt vöku fyrir Macron forseta.

Höfundur er lífeðlisfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×