Erlent

Ísraelar gefa grænt ljós á ný hús á landtökusvæðunum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Fjárrmálaráðherrann Bezael Smotrich býr sjálfur á landtökusvæðunum ólöglegu.
Fjárrmálaráðherrann Bezael Smotrich býr sjálfur á landtökusvæðunum ólöglegu. Photo by Amir Levy/Getty Images

Ríkisstjórn Ísraels hefur samþykkt áætlanir sem gera ráð fyrir því að um 3400 ný heimili verði reist á landtökusvæðum á Vesturbakkanum.

Um sjötíu prósent húsanna verða byggð austur af Jerúsalem og afgangurinn sunnan við Betlehem. Ráðherra í ríkisstjórninni segir að hverfin, sem eru á landi Palestínumanna verði byggð í hefndarskyni fyrir árás sem gerð var á svæðinu fyrir hálfum mánuði.

Leiðtogar Palestínumanna hafa fordæmt ákvörðunina en þetta eru fyrstu landtökubyggðirnar sem samþykktar eru frá því í júní á síðasta ári. Frá því Ísraelsmenn hertóku Vesturbakkann árið 1967 hafa þeir byggt um 160 landtökubæi á svæðinu þar sem nú búa um 700 þúsund gyðingar.

Palestínumenn gera hinsvegar kröfu um að í tveggja ríkja lausninni svokölluðu verði Vesturbakkinn hluti af landi þeirra. Langstærsti hluti alþjóðasamfélagsins lítur á landtökubyggðirnar sem ólöglegar, þótt Ísraelar mótmæli því.

Fjármálaráðherrann Bezael Smotrich, sem sjálfur býr á landtökusvæðunum, segir að á síðustu tólf mánuðum hafi rúmlega 18.500 ný hús verið byggð þar og að fleiri verði byggð á komandi árum. „Óvinir okkar reyna að meiða okkur og veikja, en við munum halda uppbyggingunni áfram á þessu landi,“ sagði ráðherrann á samfélagsmiðlum í gær.


Tengdar fréttir

Á­hyggjur vegna byggingar­á­forma á Vestur­bakkanum

Bandaríkjamenn segjast hafa þungar áhyggjur af þróun mála á Vesturbakkanum eftir að í ljós kom að fyrirætlanir um að byggja 4.560 nýjar íbúðir á Vestubakkanum verða teknar fyrir af Yfirskipulagsráði Ísrael í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×