Erlent

Hóta inn­rás í Rafah fyrir Ramadan ef gíslarnir verða ekki látnir lausir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kona gengur framhjá líkum fyrir utan líkhúsið við Al Aqsa sjúkrahúsið í Deir al Balah á Gasa.
Kona gengur framhjá líkum fyrir utan líkhúsið við Al Aqsa sjúkrahúsið í Deir al Balah á Gasa. AP/Adel Hana

Benny Gantz, sem er fyrrverandi yfirmaður hjá hernum og situr nú í herráði Ísrael, segir Ísraelsmenn munu láta til skarar skríða í Rafah fyrir Ramadan ef Hamas láta ekki þá gísla sem enn eru í haldi samtakanna lausa.

Ramadan, föstumánuður múslima, hefst 10. mars.

Samkvæmt AFP sagði Gantz á ráðstefnu með bandarískum leiðtogum gyðinga í Jerúsalem í gær að alþjóðasamfélagið og leiðtogar Hamas þyrftu að átta sig á því að ef gíslarnir yrðu ekki frelsaðir fyrir Ramadan, myndu aðgerðir hersins halda áfram, meðal annars í Rafah.

Hann sagði að ráðist yrði í þær samhliða samtali við Bandaríkjamenn og Egypta, til að greiða fyrir rýmingu svæðisins og freista þess að draga eins mikið úr mannfalli meðal almennra borgara og hægt væri.

Þrátt fyrir að orð Gantz virðist fela í sér að Ísraelsmenn myndu íhuga að falla frá innrás í Rafah ef gíslunum yrði sleppt rímar það ekki við það sem forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu hefur sagt en hann hefur ítrekað að nauðsynlegt sé að fara inn á svæðið til að eyðileggja göng og uppræta Hamas endanlega.

Erlendir leiðtogar og hjálparsamtök hafa ítrekað biðlað til stjórnvalda í Ísrael um að falla frá fyrirætlunum sínum en erfitt er að sjá hvert hinn gríðarlegi fjöldi sem nú hefst við í Rafah ætti að flýja. Þá er mannúðarkerfið á svæðinu sagt vera í molum.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun á morgun greiða atkvæði um tillögu um vopnahlé á Gasa en Bandaríkjamenn hafa þegar sagst munu beita neitunarvaldinu gegn tillögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×