Við vorum þrjár vinnuvinkonur sem vorum ítrekað stoppaðar þegar við gengum burt af baráttufundinum á Arnarhóli í vikunni og spurðar: „Megum við taka mynd af ykkur og spjöldunum með þessum flottu skilaboðum?“
Skilaboðin sem við höfðum sett á spjöldin voru þessi:
- Hlustið á og metið eldri konur og kvár
- Metum eldri konur og kvár
- FOKK
Af hverju skrifuðum við þessi skilaboð á spjöldin okkar og skunduðum með þau niður á Arnarhól?
Jú, tvær okkar eru komnar á hinn svokallaða „haustaldur“ þ.e. höfum þegar náð að ferðast rúmlega 60 hringi umhverfis sólina. Við höfum átt farsælan feril bæði persónulega og í atvinnulífinu. Við höfum gert okkur gildandi á vinnustöðunum okkar. Auk þess höfum við ásamt fleiri konum og kvárum, á okkar aldri, borið uppi samfélagið með því að bera ábyrgð á umönnun aldraðra forelda, borið ábyrgð á að koma börnum okkar á legg, tekið vel í að passa barnabörn og höfum einnig stutt börnin okkar fjárhagslega, auðvitað allt með glöðu geði. Á sama tíma höfum við komist í gegnum breytingaskeiðið án þess að geta talað um það og nýtt okkur bjargráð, lifað af hundruðir hrútskýringa, að það sé hlegið að því sem við höfum fram að færa o.s.frv. Köllum við þetta jafnrétti!
Sú þriðja af okkur vinkonunum er yngri en við hinar og fannst vera fullt tilefni til og tímabært að styðja okkur og aðrar konur og kvár með því að bera spjald með ljótasta orðinu sem við þekkjum.
Kannanir sýna að eftir því sem konur og kvár eldast er ekki gert ráð fyrir þeim í æðstu stjórnunarstöðum í okkar samfélagi, sbr. stöðu forstjóra, stjórnarformanns, sæti í stjórnum o.fl. Þessu viðhorfi þarf að breyta strax. Einnig þurfum við eldri konur og kvár að líta í eigin barm og vera tilbúin til að breyta okkar viðhorfi þegar við á. Við þurfum einnig að hlusta á sjónarmið yngra fólks. Við ætlumst auðvitað til að hið sama eigi við um okkur. Það er jafnrétti!!
Höfundur er kona.