Leikarinn birtir færslu á samfélagsmiðlinum Instagram vegna málsins. „Varist! Það er myndband í dreifingu þar sem seldar eru tryggingar vegna tannlæknaþjónustu og gervigreindarútgáfa af mér nýtt í myndbandið. Ég hef ekkert með þetta að gera,“ skrifar leikarinn.
Óskarsverðlaunahafinn hefur áður lýst yfir áhyggjum sínum vegna möguleika gervigreindar í kvikmyndum og sjónvarpi. Tæknin hefur áður verið nýtt meðal annars í Star Wars myndunum þar sem leikarar hafa ýmist verið endurlífgaðir, eða þeir yngdir upp.
Dæmi um þetta má finna í nýjustu Indiana Jones myndinni þar sem Harrison Ford er yngdur upp sem fornleifafræðingurinn í hluta af myndinni. Þá hefur tæknin verið nýtt til að blása lífi í persónur eftir að leikararnir sem léku þær upprunalega eru látnir, líkt og í Star Wars myndunum.
„Við vissum að þetta myndi gerast. Við sáum að það yrði hægt að taka saman tölur inn í tölvu og breyta þeim í andlit og í persónu,“ sagði Tom Hanks í hlaðvarpsþætti Adam Buxton um málið í apríl síðastliðnum.
Þar sagði hann að leikarar hefðu miklar áhyggjur af stöðu mála en gervigreind hefur verið eitt af þrætueplunum í verkfallsaðgerðum leikara í Hollywood sem staðið hefur yfir undanfarna mánuði. Leikarar hafa áhyggjur af því að fyrirtækin geti grætt á ásýnd sinni og persónu án allrar aðkomu sjálfra leikaranna.
„Það eiga sér stað samræður í öllum félögum, öllum umboðsskrifstofum og lögfræðistofum um að koma upp lagaramma utan um andlit okkar og rödd, svo að þetta verði okkar eign,“ sagði leikarinn.
„Einmitt núna gæti ég, ef ég vildi, lagt til að gerðar yrði kvikmyndasería með sjö myndum þar sem ég yrði í aðalhlutverki þar sem ég er 32 ára gamall, núna og til eilífðar. Hver sem er getur endurskapað sjálfan sig með gervigreind,“ sagði leikarinn í hlaðvarpsþættinum.