Fótbolti

Messi orðinn sigursælasti knattspyrnumaður sögunnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lionel Messi hefur fyrir löngu stimplað sig inn sem einn allra besti knattspyrnumaður sögunnar.
Lionel Messi hefur fyrir löngu stimplað sig inn sem einn allra besti knattspyrnumaður sögunnar. Kevin C. Cox/Getty Images

Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi er orðinn sigursælasti knattspyrnumaður sögunnar. Hann vann sinn 44. titil á ferlinum í nótt er Inter Miami lagði Nashville SC í vítaspyrnukeppni í úrslitum deildabikarsins í nótt.

Messi skoraði eina mark Inter Miami í venjulegum leiktíma, en staðan var 1-1 að honum loknum og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Messi og félagar höfðu þar betur, 10-9, þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en markverðir liðanna stigu á punktinn.

Með sigrinum tryggði Messi sér sinn 44. titil á ferlinum sem nú spannar tæp tuttugu ár. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Barcelona árið 2004 og varð spænskur meistari með liðinu vorið 2005.

Spánarmeistaratitlarnir eru nú orðnir tíu talsins með Barcelona. Með félaginu hefur Messi einnig unnið spænska konungsbikarinn sjö sinnum, spænska ofurbikarinn sjö sinnum, Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum, Ofurbikar UEFA þrisvar og heimsmeistaramót félagsliða þrisvar.

Þá varð Messi franskur meistari með PSG í þrígang, ásamt því að verða meistari meistaranna með félagi einu sinni.

Með argentínska landsliðinu hefur Messi orðið heimsmeistari og Suður-Ameríkumeistari ásamt því að verða heimsmeistari unglinga með U20 ára liði Argentínu og Ólympíumeistari með U23 ára liðinu. 

Hann bætti svo 44. liðsverðlaununum við í nótt með Inter Miami, en einstaklingsverðlaunin eru orðin of mörg til að telja upp hér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×