Íslenski boltinn

Sísí Lára skiptir yfir til ÍBV þrátt fyrir að skórnir séu farnir upp í hillu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigríður Lára er orðin leikmaður ÍBV á nýjan leik.
Sigríður Lára er orðin leikmaður ÍBV á nýjan leik. Stöð 2 Sport

Sigríður Lára Garðarsdóttir, betur þekkt sem Sísí Lára, hefur fengið félagaskipti í ÍBV, uppeldisfélag sitt. Sísí Lára lagði skóna á hilluna að loknu síðasta tímabili vegna þrálátrar liðagigtar.

Hin 29 ára gamla Sísí Lára er þaulreyndur leikmaður sem var aðeins 15 ára gömul þegar hún spilaði sinn fyrsta leik fyrir ÍBV. Alls hefur hún spilað 167 leiki í efstu deild með Eyjakonum, Val og FH. Þá hefur hún spilað 20 A-landsleiki sem og hún lék með Lilleström í Noregi árið 2018.

Hún hjálpaði FH að komast upp úr Lengjudeildinni á síðustu leiktíð en ákvað í kjölfarið að leggja skóna á hilluna vegna liðagigtarinnar.

Fótbolti.net vakti upphaflega athygli á þessu en samkvæmt heimildum miðilsins er ekki víst að Sísí Lára spili með uppeldisfélaginu sem er um þessar mundir í harðri fallbaráttu í Bestu deild kvenna í knattspyrnu.

ÍBV er í 8. sæti Bestu deildar kvenna, aðeins markatölu frá fallsæti, þegar þrjár umferðir eru eftir af hefðbundinni deildarkeppni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×