Greint var frá því í fréttum Stöðvar tvö í gær að barnafjölskyldur á flótta hafi verið sviptar þjónustu þrátt fyrir að útlendingalögin kveði á um að það megi almennt ekki. Ákvæði um að réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd falli úr gildi þrjátíu dögum eftir að þeim hefur verið synjað um vernd á tveimur stjórnsýslustigum tók í gildi þegar umdeilt útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar fyrrverandi dómsmálaráðherra var samþykkt 15 mars síðastliðinn.
Samræmist ekki lögum
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segir aðgerðirnar nú ekki í samræmi við lögin. „Það var gert skýrt við meðferð frumvarpsins að þessir einstaklingar ættu að vera undanþegnir en eins og við bentum á þá er þetta ákvæði í lögunum óskýrt, það er loðið, það er flókið og það er algjörlega óútfært. Þessi lög eru mjög vanhugsuð og í rauninni ekki nógu vel unnin,“ segir Arndís Anna. Píratar hafi varað við að þessi staða gæti komið upp, sem er flókin og erfið fyrir kerfið auk þeirra sem finni fyrir áhrif laganna.
Engar opnar undanþágur
Arndís Anna segir margt fólk, í allskonar stöðu, nú vera að missa þjónustu. „Við bentum á það annars vegar að lögin væru óskýr, þau væru ósanngjörn. Það eru engar opnar undanþágur til dæmis fyrir einstaklinga í gríðarlega viðkvæmri stöðu,“ segir hún og bætir við: „Það eiga að vera undantekningar fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Sú undantekning er mjög víðtækt orðuð í lögunum þannig jú að einhverju leyti kemur að óvart að það sé engu að síður verið að vísa börnum á götuna. En við vöruðum samt við þessu vegna þess að lögin eru óskýr og þau eru illa ígrunduð.“
Óljóst hvað tekur við
Misvísandi upplýsingar hafi komið fram í umræðu þingsins um frumvarpið um það hvort fólk í þessari stöðu ætti kost á neyðarþjónustu hjá sveitarfélögum í staðin. Það sé því óljóst hvað verður um fólkið. Arndís vonar að ríkisstjórnin sjái að sér. „Ég vona að þau sjái að sér og leiti betri lausna til þess að glíma við þessa áskorun en þetta var algjörlega viðbúið,“ segir hún jafnframt.