Innlent

Þráhyggju­hegðunin staðið í fjór­tán ár

Atli Ísleifsson skrifar
Dómurinn féll í síðasta mánuði en hefur nú verið birtur.
Dómurinn féll í síðasta mánuði en hefur nú verið birtur. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í níu mánaða fangelsi fyrir brot gegn nálgunarbanni og umsáturseinelti gegn konu. Þráhyggja mannsins gagnvart konunni hefur staðið í fjórtán ár.

Þetta kemur fram í nýbirtum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í síðasta mánuði. Í dómnum segir að maðurinn hafi margendurtekið brot gegn nálgunarbanni á þessum fjórtán árum og að háttsemi mannsins hafi haft veruleg áhrif á líðan og lífsgæði konunnar. Enn fremur segir að þrátt fyrir að manninum hafi verið gerðar ljósar alvarlegar afleiðingar háttsemi sinnar á líf konunnar og þrátt fyrir að hann hafi leitað sér faglegrar aðstoðar við þráhyggjunni þá hefur hann ekki látið sér segjast.

Maðurinn var nú ákærður fyrir að hafa sett sig í samband við konuna með því að hringja í síma hennar í byrjun ágústmánaðar og senda sms-skilaboð í síma hennar, þrátt fyrir að honum hafi í maí síðastliðinn verið gert að sæta nálgunarbanni allt til 29. janúar næstkomandi. Hafi honum verið bannað að veita konunni eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti.

Með brotum sínum rauf maðurinn skilorð vegna fyrri dóms frá 2024 sökum brots gegn nálgunarbanni. Hann hafði sömuleiðis hlotið dóm vegna sambærilegs brots árið 2018.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust og samþykkti hann greiðslu 350 þúsund króna í miskabætur.

Dómari mat hæfilega refsingu í málinu vera níu mánaða fangelsi og þótti ekki fært að skilorðsbinda refsinguna að öllu leyti. Skal þannig fresta fullnustu sex mánaða refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum, haldi maðurinn almennt skilorð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×