Tólftu umferð Bestu deildar kvenna lauk í gær með tveimur leikjum. Breiðablik og Valur eru jöfn að stigum í efsta sæti deildarinnar en Þróttur og FH lyftu sér upp um sæti í efri hlutanum eftir sigra um helgina.
Breiðablik vann þægilegan sigur á Keflavík þegar liðin mættust á Kópavogsvelli á laugardag. Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði bæði mörk Blika í 2-0 sigri.
Katla Tryggvadóttir og Sierra Lelii skoruðu mörk Þróttar í 2-0 sigri gegn Stjörnunni á útivelli á laugardag. Þróttur situr í 3. sæti deildarinnar eftir sigurinn en Stjarnan er í 6. sæti.
Í Hafnarfirði vann spútniklið FH 1-0 sigur á Tindastóli. Esther Rós Arnarsdóttir skoraði eina mark leiksins í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Vandræði Selfyssinga halda áfram en liðið tapaði 3-0 á heimavelli gegn Val í gær. Bryndís Arna Níelsdóttir heldur áfram að spila vel en hún skoraði tvö mörk fyrir Val í leiknum.
Þá gerði ÍBV góða ferð til Akureyrar og vann 2-0 sigur á Þór/KA. Olga Sevcova og Holly Oneill skoruðu mörk ÍBV sem lyfti sér upp úr fallsæti með sigrinum.
Öll mörkin úr 12. umferð Bestu deildar kvenna má sjá hér fyrir neðan.