Þetta kemur fram í tilkynningu frá Neytendastofu. Þar segir að stofnunin hafi í febrúar kannað ástand verðmerkinga í verslunarmiðstöðvunum. Við fyrri skoðun var farið í hundrað verslanir og veitingastaði í Kringlunni og 71 verslun og veitingastaði í Smáralind.
Eftir þá skoðun voru gerðar athugasemdir við verðmerkingar hjá 61 verslun þar sem ýmist vantaði verðmerkingar á vörur í versluninni, í sýningarglugga eða bæði. Þegar skoðuninni var fylgt eftir höfðu mjög margar verslanir lagað verðmerkingar sínar, að sögn stofnunarinnar.
Þó voru aftur gerðar athugasemdir við verðmerkingar í þrettán verslunum. Segir í tilkynningunni að Neytendastofa hafi því lagt stjórnvaldssekt á ellefu fyrirtæki sem reka verslanirnar þrettán. Það eru verslanirnar Hagkaup, Herragarðurinn, Hrím, iittala búðin, Mac, Miniso, Sambíó, Snúran, Spúútnik, Steinar Waage, Under Armour, Vodafone, World Class.
Sekta verslanir í Kringlu og Smáralind

Þrettán verslanir í Kringlunni og Smáralind hafa verið sektaðar fyrir skort á verðmerkingum.