Neytendur

Boðar að­gerðir til að koma reglu á „gjald­skyldu­frum­skóg“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra.
Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra. Vísir/lýður valberg

Atvinnuvegaráðherra hefur boðað aðgerðir til að koma skikki á það sem hún lýsir sem „gjaldskyldufrumskógi“. Óregla á bílastæðamarkaði hafi of lengi bitnað á neytendum. Neytendastofa gefur út leiðbeiningar á morgun og reiknar með því að fyrirtæki bæti úr merkingum við bílastæði.

Atvinnuvegaráðherra boðaði til morgunverðarfundar í morgun á Hilton Nordica til að kynna væntanlegar aðgerðir ráðuneytisins til að efla réttindi og hag neytenda í tengslum við gjaldskyldu á bílastæðum.

Meðal aðgerða er lagafrumvarp sem vonast er til að verði samþykkt fyrir sumarið og vefsíða sem á að skýra bílastæðaumhverfið fyrir neytendum.

Taka fyrir óhæfilega samningsskilmála

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra segir ljóst að óregla hafi of lengi verið við lýði á markaðnum og viðurkennir að grípa hefði mátt fyrr inn í. 

„Þetta er risa mál og það truflar mjög marga hvernig er staðið að þessu. En þessi gjaldskyldufrumskógur sem við erum að tala um, það er margt í gangi. Til skemmri tíma þá er núna fyrir þingi frumvarp um breytingu á markaðssetningarlögum. Þar inni eru nokkur atriði sem varða þessi bílastæðamál. Sérstaklega varðandi óhæfilega samningsskilmála.“

Með óhæfilegum samningsskilmálum vísar Hanna til þess að of oft halli á neytendur í viðskiptum við fyrirtæki sem innheimta bílastæðagjöld. Há vangreiðslugjöld og ónæg upplýsingagjöf ber þar hæst.

„Svo neytendur geti tekið ákvörðun hvort þeir eigi að efna til þessa viðskiptasambands. Það er að segja að leggja í stæðinu. Hvað það kostar ef þau gera það og innan hvaða tíma þau gera það áður en það er komið vangreiðslugjald,“ segir hún og bætir við:

„Síðan munum við á næstu mánuðum opna vefsíðu þar sem eiga að vera öll gjaldskyld bílastæði á landinu. Neytendur eiga að geta farið inn á þessa vefsíðu og aflað sér upplýsinga. Þetta er risa mál og heyrir til nokkurra ráðuneyta.“

Stjórnvöld gríðarlega eftir á og neytendur borga brúsann

Að hennar mati er frekar rammaleysi stjórnvalda og óskýrum reglum um að kenna að svo sé komið fyrir neytendum frekar en vinnubrögðum fyrirtækja. 

„Það þarf að hafa þennan ramma. Við höfum verið að fóta okkur í þessum nýja veruleika og höfum verið að gera það undanfarin ár. Það er fjölgun ferðamanna sem auðvitað er hluti af þessari mynd. Það er tæknin og annað slíkt. Oft er það þannig að stjórnvöld eru svolítið á eftir en þau eru orðin óhæfilega mikið á eftir hér og staðreyndin er sú að neytendur hafa þurft að borga brúsann og það gengur ekki.“

En finnst þér eitthvað gagnrýnisvert við Reykjavíkurborg og Isavia í þessum málum?

„Það er auðvitað þannig að þau bera sína ábyrgð líka. Sveitarfélögin, það er alveg klárt að það er ráðuneytið og síðan Alþingi sem setur þennan stóra ramma og þar liggur mesta ábyrgðin.“

Neytendastofa muni geta gripið til frekari aðgerða

Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu, hélt einnig erindi á fundinum en á morgun mun Neytendastofa gefa út leiðbeiningar til fyrirtækja sem sinna gjaldheimtu.

„Það er búið að kynna þessar leiðbeiningar og ákvarðanirnar voru teknar fyrir einhverjum tíma. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að fyrirtæki bæti úr þessum merkingum og bæti við skiltum jafnvel. Þarna er verið að taka saman á einum stað hvernig merkingar eiga að vera og hvernig vinnubrögðin eiga að vera.“

Neytendastofa mun fá aukið eftirlitshlutverk með lagabreytingu atvinnuvegaráðherra. Hún segir feykinóg búið að vera gera hjá stofnuninni.

„Það er bæði verið að styrkja stofnunina og auka sektarheimildir og einnig breyta markaðssetningarlögum. Það gerir það að verkum að við getum gripið til aðgerða varðandi atriði sem við höfum ekki getað gert með fullnægjandi hætti núna.“

Þó hún fagni frumvarpi atvinnuvegaráðherra bætir hún við að það sé tilefni til að setja enn fleiri reglur og líta til nágrannaþjóða okkar. 

„Þær reglur ættu þá að geta tekið á miklu fleiri málum en þessum merkingum og frekar umgjörðina í kringum þessi stæði. Ég held að það sé vært að skoða að setja sérreglur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×