Körfubolti

Sýndum í dag hvað er vanda­mál þessa liðs og hvert vanda­mál Tinda­stóls hefur verið lengi

Kári Mímisson skrifar
Pavel í kvöld.
Pavel í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Pavel Ermolinskij var ekki sáttur með tap sinna manna í Tindastól gegn Stjörnunni í Subway deild karla í kvöld. Leikurinn fór fram í Garðabæ og komust heimamenn upp að hlið Tindastóls með sigrinum.

„Gífurleg vonbrigði auðvitað. Maður vonaðist eftir því að þetta myndi vera svona upphafið á einhverju. Þetta var náttúrulega mjög góður fyrri hálfleikur og hefðum við klárað leikinn sterkt þá hefðum við getað tekið eitthvað með okkur áfram, einhver framfaraskref. Í staðinn og kannski það jákvæða í þessu er að við sýndum í dag hvað er vandamál þessa liðs og hver vandamál Tindastóls hefur verið lengi. 

„Það skiptir engu máli hver er að þjálfa, skiptir engu máli hver er að spila, hæðirnar og lægðirnar hjá þessu liði eru bara of miklar. Það er vandamál númer eitt. Það er verkefni mitt númer eitt. Ég er mjög lítið að pæla í þessum kerfum eða einhverju slíku, það er þetta sem er vandamálið. Hvernig við leysum það er svo bara eins og hvað annað. Það er bara vinna og það góða úr þessu er að núna er þetta bara svart á hvítu,“ sagði Pavel þegar hann var spurður hver fyrstu viðbrögð hans væru eftir tap Tindastóls gegn Stjörnunni í Garðabæ í kvöld.

Hvað ætlar þú að brotna niður við það?

Spurður út í villuvandræðin sem hans leikmenn lentu í snemma leiks gaf Pavel ekki mikið fyrir það.

„Villuvandræði, það gerist stundum en það er ekki nóg samt og hvað ætlar þú að brotna niður við það? Ef þú klikkar á skoti eða villuvandræði eða hvað sem er. Það er bara ekki nóg. Það þarf bara of lítið til að koma þessu liði úr jafnvægi og þegar það missir jafnvægið bara aðeins, þá missum við jafnvægið bara algjörlega. Þetta þarf bara að laga og við höfum bara takmarkaðan tíma til þess. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því hvar við lendum í þessari deild bara vonandi náum við inn í þessa úrslitakeppni og ég þarf bara að fara í þessa úrslitakeppni með þetta vandamál á bakinu.“

Ragnar Ágústsson þurfti frá að hverfa í leiknum eftir samstuð við William Gutenius.

„Ég held að hann sé bara nefbrotinn heyrði ég, sem er ekki gott fyrir okkur en eins og ég segi þá er það bara hluti af þessu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×