Fótbolti

Umboðsmaðurinn segir Atsu ófundinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christian Atsu í leik með Newcastle United.
Christian Atsu í leik með Newcastle United. getty/Serena Taylor

Umboðsmaður ganverska fótboltamannsins Christian Atsu segir að hann hafi ekki enn fundist á lífi.

Í gær bárust fréttir af því að búið væri að bjarga Atsu úr rústum byggingar eftir jarðskjálftann mikla í Tyrklandi aðfaranótt mánudags. Varaforseti félagsins hans, Hatayspor, staðfesti þetta.

Hann virðist hafa fengið rangar upplýsingar, allavega miðað við orð umboðsmanns Atsus, Nana Sechere. Hann segir nefnilega að hann sé enn ófundinn og leit standi enn yfir að honum.

Atsu skoraði sigurmark Hatayspor í uppbótartíma gegn Kasimpasa á sunnudaginn með skoti beint úr aukaspyrnu. Um nóttina reið jarðskjálfti upp á tæplega átta yfir í Tyrklandi og Sýrlandi.

Chelsea keypti Atsu frá Porto 2013. Hann lék aldrei leik fyrir aðallið Chelsea en var lánaður víða, meðal annars til Newcastle sem keypti hann svo 2017. Atsu lék 86 leiki fyrir Newcastle og skoraði þrjú mörk. Hann yfirgaf Newcastle 2021 og gekk þá í raðir Al-Raed í Sádí-Arabíu. Atsu hefur leikið 65 landsleiki fyrir Gana og skorað níu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×