Innlent

Sökuð um að hafa þröngvað næringar­drykkjum ofan í konuna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Geðdeild Landspítalans við Hringbraut.
Geðdeild Landspítalans við Hringbraut. Landspítali

Hjúkrunarfræðingurinn sem ákærður er fyrir manndráp í opinberu starfi er sökuð um að hafa svipt sjúkling lífi í ágúst 2021 með því að þröngva ofan í hana innihaldi úr tveimur flöskum af næringardrykk. Þetta kemur fram í ákærunni í málinu sem fréttastofa hefur undir höndum.

Málið var þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. Hjúkrunarfræðingurinn heitir Steina Árnadóttir og verður 62 ára á árinu. Henni er gefið að sök að hafa svipt sjúkling á geðdeild 33A á Landspítalanum við Hringbraut, konu á sextugsaldri, lífi „með því að þröngva ofan í hana innihaldi úr tveimur flöskum af næringardrykk, en ákærða hellti drykknum upp í munn A, á meðan henni var haldið að fyrirskipan ákærðu, þrátt fyrir að A gæfi til kynna að hún vildi ekki drykkinn, allt með þeim afleiðingum að drykkurinn hafnaði í loftvegi hennar, sem hindraði loftflæði um lungun og olli öndunarbilun og hún kafnaði.“

Hún er ákærð fyrir bæði manndráp í opinberu starfi og um leið brot gegn lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Steina neitaði sök í málinu þegar það var þingfest í dag.

Fyrir hönd aðstandenda hins látna í málinu er krafist fimmtán milljóna króna í miskabætur. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Steinu, krafðist þess við þingfestinguna í dag að einkaréttarkröfunni yrði vísað frá dómi.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari sagði við þingfestinguna í dag að dómurinn yrði líkast til fjölskipaður. Í dómnum myndi sitja einhver sérfræðingur í bráðalækningum. Vilhjálmur lagði til að læknir eða hjúkrunarfræðingur yrði meðal þriggja dómara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×