Skoðun

Endalaus hryllingur

Bryndís Haraldsdóttir skrifar

Úkraínska þjóðin berst af mikilli hörku, dugnaði og þrautseigju fyrir lífi sínu og frelsi sínu. Hræðilegar árásir Rússa á Úkraínu ekki bara á hernaðarmannvirki heldur á almenna borgara, verslunarmiðstöðvar, sjúkrahús og leikvelli sýnir meiri grimmd og hrylling en hægt væri að ímynda sér.

Konur og börn leggja á flótta, við hér á Íslandi svo og í Evrópu allri gerum hvað við getum að taka vel á móti úkraínskum flóttamönnum. En þar með er hryllingi þeirra ekki lokið. Notkun á leitarorðum eins og „úkraínskt klám“, „úkraínskar fylgdarkonur“, „úkraínskar konur fyrir kynlíf“ hefur aukist um 200-600%.

Því miður er varnarlaust fólk oft nýtt til kynlífsþrælkunar og flóttamenn eru varnarlausir. Ísland er engin undantekning og þess hefur orðið vart hér að menn hafa boðist til að hýsa úkraínskar konur sérstaklega á ákveðnu aldursbili og jafnvel farið fram á vinnuframlag svo fáein dæmi séu tekin.

Í nágrannalöndum okkar er tekið á móti flóttamönnum í sértækum búsetuúrræðum. Svæðin eru lokuð öðrum til að vernda flóttafólkið. Bæði í Noregi og Danmörku er tekið á móti umsækjendum á einum stað þar sem það býr fyrst um sinn, þar eru skólar og leikskólar, félagsaðstaða, læknisþjónusta, sálfræðiþjónusta og almenn þjónusta og utanumhald utan um þetta viðkvæma fólk.

Hjá okkur er þessu ekki svo komið heldur eru búsetuúrræði Útlendingastofnunar og Vinnumálastofnunar mjög víða. Fólkið flytur á milli úrræða og börnin mæta beint inn í næsta hverfisskóla. Skólinn veit ekkert um þessi börn fyrr en þau mæta og hefur litlar sem engar bjargir til að veita nauðsynlega þjónustu. Með vaxandi fjölda flóttafólks hér á landi er nauðsynlegt að breyta verklagi okkar, gera kerfið skilvirkara og tryggja að við veitum því fólki sem þarf vernd raunverulega verndi. Börnin þurfa að vera í fyrsta sæti og fá þjónustu við hæfi.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×