Skoðun

Ólafur Stephen­sen og Kaup­fé­lag Skag­firðinga

Hilmar Þór Hilmarsson skrifar

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, Ólafur Stephensen, segist vera hættur að versla við fyrirtæki í eigu Kaupfélags Skagfirðinga. Ástæðan að sögn er sú að einn starfsmaður Kaupfélagsins er heiðurskonsúll/ræðismaður Rússlands á Íslandi.

Ég hef hingað til haft gott álit á Ólafi Stephensen, en þetta finnst mér sérkennilegur málatilbúnaður. Mér vitanlega er Ísland enn með stjórnmálasamband við Rússland. Í Moskvu situr sendiherra Íslands og í Reykjavík situr sendiherra Rússlands. Ætlar Ólafur þá ekki að hætta að kaupa Íslenskar vörur með þeim rökum að Íslensk stjórnvöld séu með stjórnmálasamband við Rússland, sem gerði innrás í Úkraínu.

Starf konsúls/ræðismanns hefur nákvæmlega ekkert með stríðsrekstur í Úkraínu að gera. Starfsemi Kaupfélags Skagfirðinga hefur heldur ekkert með innrás Rússlands í Úkraínu að gera. Kaupfélagið skipar enga ræðismenn. Mér finnst svona árás á einstakling og félag sem hann starfar hjá vegna innrásar Rússa inn í Úkraínu vera óviðeigandi. Og þá er vægt til orða tekið. Nær væri Ólafi að beina spjótum sínum að Íslenskum stjórnvöldum ef hann telur að slíta eigi stjórnmálasambandi Íslands við Rússland. Þá myndi væntanlega starfs konsúls leggjast niður um leið enda ekkert stjórnmálasamband lengur.

Sjálfur versla ég við Kaupfélags Skagfirðinga þegar færi gefst og aðstoða líka vini mína í Úkraínu eftir bestu getu.

Höfundur er prófessor á viðskipta- og raunvísindasviði Háskólans á Akureyri.


Tengdar fréttir

Hættur að versla við KS vegna stríðsins

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segist vera hættur að versla við veitingastaði og afþreyingastaði sem eru í eigu Kaupfélags Skagfirðinga (KS). Ástæðan er sú að starfsmaður kaupfélagsins er heiðurskonsúll Rússlands á Íslandi. Konsúllinn segist ekki sinna þeim störfum fyrir hönd KS.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×