„Í dag uppskárum við og kláruðum okkar fyrsta maraþon. Það eru ófáar helgar og kvöld búin að fara í hlaup og börnin orðin ansi vön því að annaðhvort okkar sé alltaf úti að hlaupa,“ sagði Málfríður í færslu á Facebook síðu sinni. Í samtali við Vísi segir hún þau ekki hafa verið mikla hlaupara fyrr en þessi ákvörðun var tekin.

Byrjuðu af fullum krafti í mars
„Við byrjuðum að hlaupa fyrir tveimur árum og hlupum tíu kílómetra síðasta sumar en eiginlega ekkert síðan þá, fyrr en í mars þegar við skráðum okkur í þetta maraþon,“ segir Málfríður. Hún segir hausinn hafa verið erfiðastan í hlaupunum til þess að byrja með en undir lokin hafi verkirnir verið mættir út um allt og þá hafi skipt sköpum að hafa hugann á réttum stað.
„Í dag löbbum við tvöfalt hægar en allir aðrir í kringum okkur,“ segir hún í glensi en þau eru að slaka á eftir hlaupin. Hún segir ákveðna tómleikatilfinningu fylgja því að klára markmiðið sem þau eru búin að vera að vinna að í hálft ár.

Fljót að gleyma
Aðspurð hvort að fleiri maraþon séu í kortunum er svarið eflaust eitthvað sem margir geta tengt við: „Í lok hlaupsins í gær sagðist ég aldrei ætla að gera þetta aftur en maður er fljótur að gleyma.
Við erum á hóteli með fólki sem var hérna úti í sömu erindagjörðum en mörg þeirra voru að hlaupa sitt sjötta maraþon. Þau fengu gull medalíu við þann áfanga og núna er það næsta markmiðið hjá okkur,“ segir Málfríður og hlær.
