Lífið

Gary Bus­ey á­kærður fyrir kyn­ferðis­of­beldi

Árni Sæberg skrifar
Gary Busey hefur komið sér í vandræði á ný.
Gary Busey hefur komið sér í vandræði á ný. Taylor Hill/Getty

Lögreglan í New Jersey í Bandaríkjunum hefur ákært leikarann Gary Busey fyrir kynferðisofbeldi á ráðstefnu áhugamanna um hryllingsmyndir sem haldin var síðustu helgi.

Busey var heiðursgestur á Monster Mania ráðstefnunni sem fór fram í úthverfi Philadelfíu í New Jersey síðustu helgi. Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar í úthverfinu hefur leikarinn, sem er 78 ára gamall, nú verið ákærður eftir að lögreglunni barst fjöldi kvartana vegna hegðunar hans á ráðstefnunni.

Hann er ákærður fyrir það sem kallað er glæpsamleg kynferðisleg snerting í bandarísku réttarfari, tilraun til slíkrar snertingar og kynferðislega áreitni. The Guardian greinir frá.

Busey skaust upp á stjörnuhimininn árið 1978 þegar hann var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir að leika aðalhlutverkið í The Buddy Holly Story. Eftir það vakti hann helst athygli fyrir aukahlutverk í kvikmyndum á borð við Lethal Weapon, Point Break, Under Siege og Predator 2.

Á tíunda áratugnum fór að halla undan fæti hjá leikaranum þegar hann var ákærður fyrir fíkniefnabrot.

Þá hefur hann verið handtekinn vegna heimilisofbeldis og árið 2011 var hann sakaður um kynferðislega áreitni gegn starfsmanni sjónvarpsþáttarins Celebrity Apprentice, sem var í umsjá Donalds Trump.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.