Skoðun

Ríkisstjórn fyrir virkjunarsinna!

Andrés Ingi Jónsson skrifar

Rammaáætlun var ætlað að skapa eins mikla sátt og hægt verður að ná um virkjanir í landinu. Þær breytingar sem stjórnarmeirihlutinn hefur lagt til á þingi gera þá sátt að litlu. Þær byggja ekki á faglegum rökum, heldur pólitískum hrossakaupum innan ríkisstjórnarinnar. Sérstaklega er óskiljanlegt ef Vinstri græn telja sig hafa fengið eitthvað fyrir sinn snúð í þessu. Í öllum stærstu breytingum meirihlutans tapar náttúran.

Sem forsmekk fyrir umræðuna sem verður í þingsal eftir helgi nefni ég hérna þrjár verstu ákvarðanir meirihluta Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í umhverfis- og samgöngunefnd.

Sýndarmennska í Neðri-Þjórsá.

Urriðafoss- og Holtavirkjanir eru færðar úr nýtingu í bið. Það hefur virkjanasinnum ekki þótt erfitt, enda langt í að þær komist á eitthvað framkvæmdastig. Hvammsvirkjun er hins vegar skilin eftir í nýtingu, þar er Landsvirkjun líka með gröfurnar tilbúnar. Þetta gerir hvatningu meirihlutans um að mikilvægt sé fyrir ráðherra og verkefnastjórn að horfa á neðri hluta Þjórsár sem eina heild ansi innantóma. Ef meirihlutinn vill láta meta allar þrjár virkjanir sem eina heild, þá þarf meirihlutinn einfaldlega að setja þær allar þrjár í bið.

Stóra fórnin: Þjórsárver.

Kjalölduveita er færð úr vernd í biðflokk. Fyrsta skrefið í átt að því að uppfylla draum Landsvirkjunar um að eyðileggja Þjórsárver, eftir hálfrar aldar baráttu náttúruverndarfólks. Meirihlutinn lætur þannig undan dylgjum Landsvirkjunar um að ólöglega hafi verið staðið að mati virkjunarkostsins í verndarflokk, þó að umhverfisráðuneytið sé búið að hrekja þær skilmerkilega.

Verðmætasta vatnasviðið fært nær virkjun.

Héraðsvötnin eru færð úr vernd í biðflokk, vegna þess að meirihlutanum þykir áhrif virkjana hafa verið ofmetin. Þar er málum snúið á haus, því Héraðsvötnin fóru í verndarflokk fyrir að vera einfaldlega með dýrmætustu náttúruna. Vatnasvið Héraðsvatan er með hæsta verðmætamat allra landsvæða sem fjallað var um í rammaáætlun. Hér stendur meirihlutinn rækilega með hagsmunum virkjunaraðila frekar en náttúrunni.

Atkvæðagreiðsla um rammaáætlun verður í næstu viku. Þar verður þingflokkur Pírata í hópi þeirra sem áfram berjast fyrir náttúrunni. Við sjáum svo eftir það hvaða flokkar eru alvöru náttúruverndarflokkar.

Höfundur er þingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×