Forsætisráðuneytið tilkynnti í gær um stofnun tímabundinnar ráðherranefndar um málefni innflytjenda og flóttafólks. Hlutverk nefndarinnar verði að vinna markvisst að áherslum ríkisstjórnarinnar í málaflokkinum sem birtast í stjórnarsáttmála.
„Þessi nefnd fer nú af stað og henni er ætlað að huga að bæði þeim sem koma hingað til að vinna, þeim sem eru að koma hingað í leit að alþjóðlegri vernd og líka bara hvernig við getum hugað að því að taka vel á móti fólki,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eftir fund ríkisstjórnarinnar í gær.
Aðspurð hvort um stefnubreytingu í málaflokkinum væri að ræða sagði Katrín:
„Þetta sýnir miklu heldur að við erum í raun og veru að forgangsraða þessum málefnum með því að setja niður sérstaka ráðherranefnd, þannig að við erum að vinna áfram út frá þeim markmiðum sem við höfum sett okkur, en erum að setja þetta ofar á dagskrána.“

Ótrúverðugt ef frumvarpið fer í gegn
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir að ríkisstjórnin geti ekki ráðist í endurbætur á málaflokkinum ef samþykkja eigi útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra.
„Það segir sig sjálft að ríkisstjórnin getur ekki skipað ráðherranefnd um heildarendurskoðun á þessum málaflokki og byrjað þá vinnu með því að keyra í gegn mjög umdeilt frumvarp sem þrengir verulega að réttindum þessa hóps sem ríkisstjórnin ætlar að skoða í því ljósi að þau séu mannauður og fengur, eins og þau lýstu í þessari yfirlýsingu,“ segir Þórhildur Sunna.
Í tilkynningu forsætisráðuneytisins um stofnun nefndarinnar segir:
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna segir m.a. að þátttaka fólks af erlendum uppruna auki fjölbreytileika, efli íslenskt samfélag og menningu og sé ein forsenda fyrir vexti efnahagslífsins. Tryggja þurfi að innflytjendur sem hér vilji búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína og þekkingu.
Þórhildur Sunna vonar að málið sé til marks um stefnubreytingu.
„Ef það er byrjunarpunkturinn að samþykkja þessi ómannúðlegu lög, þá er skipun þessa starfshóps auðvitað bara einn ein smjörklípan til þess að beina athyglinni frá mannvonsku þessa frumvarps.“
Hún fái ekki annað séð en að falla verði frá frumvarpi dómsmálaráðherra.
„Allt annað er ótrúverðugt varðandi þessa vinnu. Þau eru búin að velja að skipa starfshóp, þau geta ekki valið bæði,“ segir Þórhildur Sunna.