Skoðun

Slökkvum á i­Podinum í Reykja­vík

Birta Karen Tryggvadóttir skrifar

Ég er 22 ára gömul, og þekki ekkert annað en að Reykjavík sé stjórnað af Degi B. Eggertssyni og félögum. Borgarstjórinn hefur verið í áhrifastöðu í borginni – með örstuttum hléum – í tuttugu ár.

Þegar hann tók fyrst sæti sem aðalmaður í borgarstjórn árið 2002 var ég nýhætt á bleyju, og Apple hafði nýverið kynnt iPodinn til sögunnar. Tilkynnt var á dögunum að Apple ætlaði að hætta framleiðslu á spilaranum vinsæla eftir tuttugu ára framleiðslusögu. Allt hefur víst sinn tíma.

Það gildir um stjórnmálafólk, rétt eins og raftæki sem einu sinni þóttu nýmóðins.

Öfluga konu í borgina

Hildur Björnsdóttir er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni. Ung og öflug þriggja barna móðir sem þekkir raunveruleika ungs fólks í borginni á eigin skinni. Hún þekkir brasið sem fylgir því að vera með leikskólabörn í Reykjavík, og man eftir því hindrunarhlaupi sem húsnæðismarkaðurinn er fyrir fyrstu kaupendur.

Fyrir okkur unga fólkið er mikilvægt að eiga fyrirmyndir. Fólk sem ryður brautinu og gefur okkur beinharðar sannanir fyrir því að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Hildur stendur svo sannarlega undir því. Hún er tilbúin að taka við keflinu.

Ekki síður er mikilvægt að þeir – oft á tíðum miðaldra karlar – sem fyrir eru á fleti þekki sinn vitjunartíma. Sagan af iPodinum er ágætis áminning um það. Framtíð verður einhvern tíma fortíð. Það er hollt að breyta reglulega til. Hleypa nýjum og ferskum andlitum að.

Nú er tíminn kominn í Reykjavík.

Valið er skýrt

Borgarstjóra má gefa að hann hefur sýnt fádæma klókindi við að halda völdum. Honum hefur ítrekað tekist að snúa tapaðri stöðu sér í hag og kippt inn nýjum samstarfsflokkum eftir hentugleika. Kosningarnar nú á laugardaginn snúast um nákvæmlega þetta.

Valið er skýrt á laugardag. Sjálfstæðisflokkinn – og glæsilega unga, öfluga konu - eða enn eina útgáfuna af því sama.

Höfundur er háskólanemi og skipar 34. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×