Skoðun

Lausnin á hús­næðis­vanda borgarinnar

Thelma Rán Gylfadóttir skrifar

Það er alltaf áhugavert að fylgjast með fréttum vikuna fyrir kosningar, þegar frambjóðendur hafa sig alla við til að næla í atkvæði. Þessi kosningabarátta hefur þó verið öðruvísi fyrir mér, kannski vegna þess að ég er sjálf í framboði eða kannski vegna þess að í vikunni varð ég vitni að því hversu langt sumir virðast virkilega vera tilbúnir að ganga til að næla sér í atkvæði.

Viku fyrir kosningar þegar góð ráð eru dýr virðast Vinstri græn nefnilega hafa fundið lausnina á húsnæðisvanda borgarinnar. Lausnin er einfaldlega að taka upp stefnu annars flokks í húsnæðismálum. Sósíalistaflokkurinn á nefnilega mjög vandaða og flotta stefnu þegar kemur að því að vinna á húsnæðisvandanum í Reykjavík en húsnæðismálin í borginni hafa lengi verið stórt vandamál, vandamál sem borgarbúar vilja láta laga.

Ég vildi að ég gæti fagnað aukinni samstöðu um lausnir í húsnæðismálum en það er erfitt þegar meirihlutinn, þar með talið Vinstri græn hafa ítrekað kosið gegn tillögum Sósíalista um að borgin byggi, síðast fyrir nokkrum dögum þegar fulltrúi Sósíalista lagði fram tillögu um að Félagsbústaðir byggi 3000 íbúðir. Það stöðvaði þá þó ekki í að taka upp nauðalíkt slagorð og Sósíalistar aðeins viku fyrir kosningar. En Vinstri græn héldu sem sagt fund um síðustu helgi, fund um húsnæðismál, fund með yfirskriftinni „Borgin byggir” en slagorð Sósíalista hefur verið „Borgin á að byggja”.

Ég velti fyrir mér hvort þeim hefði snúist hugur á þessum nokkru dögum en svo mundi ég síðustu borgarstjórnarkosningarnar árið 2018. Þá talaði flokkurinn fyrir því að "útrýma" biðlistum, endurreisa verkamannabústaðakerfið, og fjölga félagslegum leiguíbúðum með 600 nýjum íbúðum.

Það er ekki hægt að sjá að neitt hafi orðið að þessum kosningaloforðum enda virðist sem Vinstri græn í meirhluta borgarstjórnar hafi kosið gegn eigin kosningarloforðum. Árið 2018 var tillaga um undirbúning að stofnun Byggingarfélags Reykjavíkur felld. Árið 2019 var tillaga Sósíalista um stofnun íbúðafélags svæfð, en það félag hefði komið til viðbótar við Félagsbústaði. Árið 2020 felldi svo meirihlutinn tillögu um aðgerðir gegn húsnæðiskreppu sem hefði getað eytt biðlistum eftir húsnæði í borginni.

Húsnæðiskreppan í Reykjavík er því greinilega vandamál sem Vinstri græn gera sér grein fyrir að þurfi laga, vandinn virðist bara sá að þau vilja ekki laga ástandið, nema þá kannski vikuna fyrir kosningar?

Höfundur er frambjóðandi á J-lista Sósíalistaflokksins í borgarstjórnarkosningum 2022.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×