Skoðun

Jarðtengjum Reykjavík

Kristján Þorsteinsson skrifar

Nú er ég veitingamaður að atvinnu, en ekki tuðari. Þó á ég bágt með að blanda mér ekki í umræðuna nú þegar líður að borgarstjórnarkosningum.

Ég hef rekið veitingastaði í Reykjavík í fjöldamörg ár, og get staðfest frá fyrstu hendi að rekstrarumhverfið hefur versnað til muna á þeim tíma. Borgarstjórnarmeirihlutinn virðist telja að borgin sé að gera rekstraraðilum greiða með því að hýsa þá á borgarlandinu, frekar en öfugt.

Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að það sé hlutverk borgaryfirvalda að veita einkaframtakinu liðsinni. Að gott rekstrarumhverfi í borginni sé hagur allra – yfirvalda, íbúanna og rekstraraðila í borginni.

Þessi borgarstjórnarmeirihluti misskilur hins vegar fullkomlega þetta stoðhlutverk. Afgreiðsla einföldustu mála dregst á langinn, kröfur heilbrigðisyfirvalda eru úr öllu samhengi við raunheima og sáralítið samráð er haft við rekstraraðila þegar ráðist er í löngu tímabærar framkvæmdir. Hlutverk borgarinnar er ekki að leggja hindrunarbraut fyrir atvinnurekendur.

Það er hollt að skipta reglulega um valdhafa. Við þurfum að gefa þeim frí sem orðnir eru samdauna valdinu og hættir eru að samsvara sig þeim sem lifa og starfa í borginni. Notum nú tækifærið, breytum til og kjósum fólk sem hefur skilning á því hvernig er að eiga lífsviðurværið undir eigin vélarafli.

Höfundur er veitingamaður í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×