Skoðun

Hin­segin­mál eru mann­réttinda­mál

Anna Sigrún Jóhönnudóttir og Steinunn Dagmar Björgvinsdóttir skrifa

Þann 31. mars síðastliðinn var sýnileikadagur trans fólks. Slíkir dagar eru mikilvægir fyrir jaðarsetta hópa vegna þess að sýnileiki gefur fólki styrk og rými til þess að vera það sjálft. Með því að taka þátt í slíkum dögum og veita þeim athygli segjum við „ég sé þig, ég styð þig, áfram þú!”. Sem eru óneitanlega skilaboð sem öll hafa gott af því að heyra, en sérstaklega þau sem hafa fram að þessu ekki getað sýnt sitt rétta sjálf.

Á seinustu misserum hefur orðið mikið bakslag í bandaríska skólakerfinu hvað hinsegin málefni varðar. Frá upphafi skólaársins hafa skólayfirvöld í ýmsum ríkjum bannað bækur sem fjalla um reynsluheim hinsegin fólks og fjarlægt fána og plaköt sem minna á hinseginleika. Staðan er svo alvarleg að börn sem falla undir hinseginleika verða fyrir árásum af hendi samnemenda sinna. Skólastofan er því að verða vígvöllur fyrir mismunun og hatur, þvert á skólastefnur og löggjöf. Sumir skólafulltrúar, þingfólk og foreldrar eru þeirrar skoðunar að hinsegin málefni eigi ekki heima í skólastofunni vegna þess að það sé pólitískt mál og ekki við hæfi ungra barna. Upplifun hinsegin barna og aðstandenda þeirra er aftur á móti sú að verið sé að útrýma þeim úr bandaríska menntakerfinu og þagga niður þeirra raunveruleika.

Er það staða sem við viljum stefna á? Sem betur fer er staða trans og kynsegin fólks hér á Íslandi í mun betri farvegi en betur má ef duga skal. Verið er að byggja nýtt íþróttamannvirki án þess að hugsa sérstaklega um þennan hóp þegar kemur að búningsklefum. Skólastjórnendur fá að taka ákvarðanir út frá eigin fordómum og hafna fræðslu fyrir starfsfólk um málefni trans barna þrátt fyrir að vera með trans nemendur innan skólans. Fjölmiðlar hér á landi birta aðsendar transfóbískar greinar í nafni málfrelsis þar sem teknar eru fyrir aðstæður sem myndu seint eða aldrei eiga sér stað í raunveruleikanum, einungis til að ýta undir hatur á trans fólki og vinna gegn allri þeirra mannréttindabaráttu.

En hvað er það sem upprætir fordóma og dregur úr fáfræði? Jú, fræðsla. Kynjafræði er gífurlega mikilvægt fag sem VG í Fjarðabyggð vill sjá á öllum skólastigum. Í kynjafræði læra börn og unglingar meðal annars á mörk sín og annarra, að þekkja hugtök sem aðstoða við að setja tilfinningar sínar og upplifanir í orð og seinast en ekki síst að bera virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins.

Höfundar eru Anna Sigrún Jóhönnudóttir, sem skipar 3. sæti á lista VG í Fjarðabyggð og Steinunn Dagmar Björgvinsdóttir sem skiptar 6. sæti listans.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×