Innlent

Vill hús­næðis­sátt­mála á höfuð­borgar­svæðinu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði eftir kynningarfund í morgun að hann myndi beita sér fyrir því að koma á húsnæðissáttmála á höfuðborgarsvæðinu.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði eftir kynningarfund í morgun að hann myndi beita sér fyrir því að koma á húsnæðissáttmála á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Egill/Atli

Borgarstjóri kallar eftir því að ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu geri með sér sérstakan húsnæðissáttmála til að leysa stöðuna á húsnæðismarkaði. Borgin ætlar að tvöfalda árlegt lóðaframboð sitt næstu fimm árin.

Þær í­búðir sem fara af stað í byggingu í Reykja­vík í ár eru rétt tæp­lega þrjú þúsund talsins.

Borgin ætlar nú að gera enn betur og kynnti í dag á­form sín um að tvö­falda lóða­fram­boð sitt í ár og halda því þannig út næstu fimm árin.

Þannig verður ríf­lega tvö þúsund lóðum út­hlutað í ár en ekki þúsund eins og fyrri á­ætlanir gerðu ráð fyrir.

Úr offramboði í skort á tveimur árum

„Við erum að senda skýr skila­boð inn á markaðinn að við séum klár. En það þarf sam­hent átak; önnur sveitar­fé­lög, fjár­mála­stofnanir og byggingar­iðnaður þarf auð­vitað að koma inn í þetta af krafti,“ segir Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri.

Brot af þeim íbúðum sem byrjað verður að byggja í ár.vísir

Og Dagur hefur á­kveðnar hug­myndir um hvað það sé sem þurfi að gera til að laga hús­næðis­markaðinn. Það þurfi að taka á hús­næðis­málunum eins og tekið var á sam­göngu­málunum.

„Ég hins vegar kallaði eftir því hér í dag að það komi meiri lang­­tímahugsun inn í þetta. Og við fáum eins og er í sam­göngu­málunum; sam­göngu­sátt­máli fyrir höfuð­borgar­svæðið. Í raun vantar hús­næðis­sátt­mála fyrir höfuð­borgar­svæðið,“ segir Dagur.

Hér þurfi að setjast niður og festa plan til lengri tíma. Skapa á­kveðinn stöðug­leika.

„Þannig að það liggi fyrir hvar eigi að byggja, hvaða tegundir í­búða, hvaða fjöl­breytni og í hvaða takti. Þannig að þetta sé ekki svona sveiflu­kennt og markaðurinn þróist bara úr of­fram­boði í skort á bara tveimur árum. Heldur þurfum við að hafa hús­næðis­markað eins og hjá siðuðum þjóðum með hús­næðis­sátt­mála til lengri tíma,“ segir Dagur.

Hann sér þó ekki fram á neina töfra­lausn á stöðunni á hús­næðis­markaði. Hús­næðis­sátt­máli er þó lang­tíma­lausn að hans mati sem hann kveðst ætla að beita sér fyrir að verði gerður strax í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×