Greint var frá því í síðustu viku að Héraðsdómur Norðurlands eystra hefði dæmt Dalvíkurbæ til að greiða kennara milljónir króna í bætur en kennaranum hafði verið vikið úr starfi eftir að hann svaraði nemenda í sömu mynt og sló til hans. Var það mat dómsins að kinnhestur kennarans hafi ekki verið gróft brot í starfi sem gæti réttlætt fyrirvaralausan brottrekstur.
UNICEF á Íslandi, Barnaheill – Save the Children á Íslandi og Heimili og skóli – Landssamtök foreldra sendu frá sér yfirlýsingu vegna málsins í dag þar sem skylda stjórnvalda til að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda börn fyrir hvers kyns ofbeldi var ítrekuð.
Niðurstaðan í dómsmáli kennarans í Dalvík hafi því verið reiðarslag en samtökin segja skeytingarleysi gagnvart réttindum barna og úreltar hugmyndir hafa verið að finna í dóminum. Hvergi hafi verið minnst á 19. grein Barnasáttmálans eða réttindi nemandans.
„Þá er ekki minnst á að milli barns og fullorðins einstaklings ríkir valdaójafnvægi sem gerir barnið tilfinningalega, vitsmunalega og líkamlega viðkvæmara. Þess í stað er orðfæri dómsins gildishlaðið og látið að því liggja að viðbrögð barnsins hafi verið röng en viðbrögð fullorðna aðilans hafi verið rétt og jafnvel eðlileg,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.
Áhyggjuefni ef dómstólar ýta undir fordóma gegn börnum
Þau segja dóminn vafalaust koma flestum sem vinna með börnum spánskt fyrir sjónir og segja ámælisvert að í dómnum sé hvorki að finna viðurkenningu á viðkvæmri stöðu barnsins né áréttingu dómara um að það skuli aldrei beita börn ofbeldi.
Í dómnum sé vísað til reglugerðar sem ítrekar skyldu starfsfólks til að bregðast við ef háttsemi nemenda leiðir af sér hættu fyrir aðra, sem og laga sem kveða á um að nemendur skuli hlíta fyrirmælum starfsfólks. Aftur á móti sé ekki minnst á það að í sömu reglum og lögum sé kveðið á um að starfsfólk skóla skuli bera velferð nemenda fyrir brjósti og sýna þeim stuðning.
„Í ljósi þessa kemur ekki á óvart að niðurstaða dómsins sé að ekki hafi verið um gróft brot í starfi að ræða, en þá niðurstöðu verður að skoða í ljósi þess að hvergi er minnst á réttindi barnsins. Ljóst er að dómurinn leggur sig fram um að réttlæta ofbeldi gegn barni, þrátt fyrir að hann segist ekki samþykkja það,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá segja þau það áhyggjuefni ef dómstólar landsins ýta undir fordóma gagnvart börnum.
„Það færir baráttuna fyrir réttindum barna áratugi aftur í tímann. Við skorum á dómstóla landsins til þess að fylgja Barnasáttmálanum, berjast gegn fáfræði um réttindi barna, tryggja vernd barna, og ábyrgð fullorðinna.“