Innlent

Vill leiða ráð­herra og aðstoðarmannaskarann fyrir dóm

Árni Sæberg skrifar
Ársæll vill leiða Kristrúnu og Ingu fyrir dóm sem vitni. Guðmundur Ingi telst sem aðili að fyrirhugaðri málshöfðun.
Ársæll vill leiða Kristrúnu og Ingu fyrir dóm sem vitni. Guðmundur Ingi telst sem aðili að fyrirhugaðri málshöfðun. Vísir

Lögmaður Ársæls Guðmundssonar, skólameistara Borgarholtsskóla, hefur óskað eftir því að fá að leiða forsætisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og sex aðstoðarmenn ráðherra sem vitni í svokölluðu vitnaleiðslumáli. Það er gert til þess að leita sönnunar um atvik í tengslum við ákvörðun menntamálaráðherra um að auglýsa embætti Ársæls laust til umsóknar.

Þetta kemur fram í bréfi sem Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Ársæls, sendi Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Í samtali við Vísi segir hann að beiðnin byggi á heimild í einkamálalögum til þess að leiða menn fyrir dóm í þeim tilgangi að meta hvort tilefni sé til þess að höfða mál. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.

Krefst skýringa 

Í bréfi til Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra, í gær óskaði Arnar Þór skýringa á ákvörðun ráðherra um að auglýsa starf Ársæls.

Í bréfinu kom fram að Ársæll áskildi sér allan rétt, verði ákvörðunin ekki afturkölluð, þar á meðal að höfða mál til ógildingar hennar og/eða fjártjóns- og miskabætur vegna hennar. Arnar Þór tók sérstaklega fram að hann áskildi sér rétt til að leggja fram beiðni um að leidd verði vitni fyrir dóm, þar á meðal ráðherrar, að viðlagðri refsiábyrgð um rangan framburð. Þetta yrði gert til að freista þess að komast að raun um hver í reynd voru atvik að baki þessari ákvörðun.

Tveir ráðherrar, sex aðstoðarmenn, tveir skólameistarar og einn nemdandi

Hann hefur nú farið þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að eftirfarandi verði leiddir fyrir dóm til þess að bera vitni:

  1. Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra
  2. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra
  3. Ágúst Ólafur Ágústsson, aðstoðarmaður mennta- og barnamálaráðherra
  4. Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir, aðstoðarmaður mennta- og barnamálaráðherra
  5. Hreiðar Ingi Eðvarðsson, aðstoðarmaður félags- og húsnæðismálaráðherra
  6. Sigurjón Arnórsson, aðstoðarmaður félags- og húsnæðismálaráðherra
  7. Ólafur Kjaran Árnason, aðstoðarmaður forsætisráðherra
  8. Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra
  9. Helga Kristín Kolbeins, formaður Skólameistarafélags Íslands
  10. Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir, aðstoðarskólameistari Borgarholtsskóla
  11. Hallur Hrafn Garðarsson Proppé, formaður nemendafélags Borgarholtsskóla

Þá segir í beiðninni að af réttarfarsástæðum standi lög ekki til þess að Guðmundur Ingi verði leiddur fyrir dóm sem vitni, þar sem hann sé aðili að fyrirhuguðu dómsmáli.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×