Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu sagði við fjarfund hans með Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, að Japan væri nánasta bandalagsríki Ástralíu í Asíu og það hefði sýnt sig í sérstöku samstarfi ríkjanna í gegnum árin. Í frétt ABC News í Ástralíu er haft eftir Morrison að Ástralía og Japan deili sömu gildum um lýðræði, réttarkerfið, mannréttindi og frjáls viðskipti.
Miðillinn hefur einnig eftir sendiherra Japans í Ástralíu að í ljósi versnandi öryggisástands á svæðinu hafi sáttmálin töluverðan fælingarmátt.
Forsvarsmenn ríkjanna hafa ekki nefnt Kína en það er ljóst að sáttmálin beinist að Kínverjum. Talsmaður utanríkisráðuneytis Kína var spurður um sáttmálann á blaðamannafundi í gær og sagði hann að samkomulög sem þessi ættu ekki að skaða þriðju aðila.
Kyrrahafið væri nógu stórt fyrir þróun allra ríkja á svæðinu.
Sjá einnig: Ástralar ganga til liðs við Bandaríkin gegn Kína
Japan hefur áður gert varnarsamkomulag við Bandaríkin og Japanir hafa einnig talað um það opinberlega að þeir myndu koma Taívan til aðstoðar, geri Kínverjar innrás í eyríkið.
Í fyrra gerðu Ástralar samkomulag við Bandaríkin um að fá aðgang að tækni Bandaríkjanna varðandi kjarnorkukafbáta.
Sjá einnig: Þríhöfða samkomulag til höfuðs Kína á Kyrrahafi
AFP fréttaveitan segir að fjárútlát Japana til varnarmála hafi aukist verulega á undanförnum áratug en ráðamenn þar vísa til sífellt versnandi öryggisástands og benda bæði á Kína og Norður-Kóreu í því samhengi.