Erlent

Assange gæti afplánað dóm í Ástralíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Stuðningsmenn Assange fyrir utan Háarétt í London þar sem framsalskrafan er tekin fyrir í morgun.
Stuðningsmenn Assange fyrir utan Háarétt í London þar sem framsalskrafan er tekin fyrir í morgun. AP/Kirsty Wigglesworth

Bandarísk stjórnvöld segja að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, gæti fengið að afplána mögulegan fangelsisdóm í heimalandi sínu Ástralíu verði hann framseldur til Bandaríkjanna og sakfelldur þar. Áfrýjun vegna framsalskröfunnar er tekin fyrir í Bretlandi í dag.

Breskur dómari hafnaði kröfu Bandaríkjastjórnar um að framselja Assange í janúar á þeim forsendum að hætta væri á að hann reyndi að svipta sig lífi í bandarísku fangelsi. Bandaríkjastjórn áfrýjaði og verður málið tekið fyrir í dag og á morgun.

Assange er ákærður í Bandaríkjunum fyrir þjófnað og birtingu á sendiráðs- og hernaðarskjölum árið 2010. Gagnalekinn var afar vandræðalegur fyrir Bandaríkjastjórn en í skjölunum var meðal annars að finna athugasemdir bandarískra erindreka um erlenda ráðamenn. Þar var einnig að finna upplýsingar um dráp Bandaríkjahers á óbreyttum borgurum í Írak.

Stofnanda Wikileaks er meðal annars gefið að sök að hafa átt þátt í tölvuinnbroti þar sem skjölunum var stolið en einnig fyrir að tefla lífi fólks í hættu með því að birta skjölin í heild sinni og þar með nöfn fólks sem hafði lagt Bandaríkjaher lið á hættulegum átakasvæðum.

Í greinargerð sem Bandaríkjastjórn lagði fram í Bretlandi til stuðnings framsalskröfu sinni kemur fram að hún hafi veitt breskum stjórnvöldum fyrirheit um að Assange gæti afplánað mögulegan fangelsisdóm í Ástralíu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

AP-fréttastofan segir að til hafi staðið að Assange yrði viðstaddur réttarhöldin í gegnum fjarfundarbúnað úr fangelsi. Þegar til kastanna kom var hann þó fjarstaddur. Lögmaður hans sagði að hann teldi sig ekki geta verið viðstaddan.

Assange hefur verið í fangelsi frá því að hann var handtekinn í apríl árið 2019. Fram að því hafði hann dvalið í sendiráði Ekvador í London í sjö ár til að komast hjá því að vera framseldur til Svíþjóðar þar sem hann var til rannsóknar vegna kynferðisbrots.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×