Greint var frá því á mánudaginn að forseti væri kominn í smitgát eftir að hafa umgengist ungmenni í Valsárskóla á Svalbarðsströnd sem greindust nýverið með kórónuveiruna.
Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands fór forseti í sýnatöku á Covid-19 göngudeild við opnun klukkan 8:15 í gærmorgun. Á meðan hann beið eftir niðurstöðu tilkynnti hann í gegnum fjarbúnað um nýja handhafa Umhverfisverðlauna atvinnulífsins á Umhverfisdegi atvinnulífsins. Hann var svo kominn með neikvæða niðurstöðu úr sýnatökunni um klukkan 11 og gat dagskrá hans eftir hádegi því haldist óbreytt.

Á Facebook-síðu forsetans segir hann að gaman hafi verið að ræða við ungmenni í Laugalækjarskóla og MK um forvarnir, skaðsemi þess að reykja eða nota nikótínpúða og skynsemina sem felist í því að byrja ekki að neyta áfengis á unga aldri.

„Á forvarnardeginum í ár var einnig lögð áhersla á mikilvægi þess að ná góðum nætursvefni og varast það að neyta orkudrykkja í óhófi. Undanfarna áratugi hefur tekist að snarminnka áfengisdrykkju og tóbaksnotkun ungmenna á Íslandi þannig að eftir er tekið víða um heim. Ungmenni Íslands eru upp til hópa frábær og flott, það fann ég og sá á fundum mínum á forvarnardeginum.“




