Skoðun

Má bjóða þér að bíða?

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir skrifar

Við erum öll sammála um að aðgengi að heilbrigðisþjónustu á að vera jafnt fyrir alla, óháð efnahag og óháð búsetu. Um það er enginn ágreiningur í íslenskum stjórnmálum. Við höfum í gegnum tíðina átt býsna gott kerfi sem byggist á norrænni hugmyndafræði, þar sem jafnt aðgengi og þjónusta er leiðarstefið. Svo þarf að vera áfram. Að ríkið greiði fyrir þjónustuna þarf hins vegar ekki að þýða að bara ríkið megi veita þjónustuna.

Lærdómur heimsfaraldurs er að saman vegnar okkur betur. Helsta arfleið ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálunum er engu að síður að hafa keyrt harða stefnu þar sem framlagi sjálfstætt starfandi fagaðila í heilbrigðisþjónustu er hafnað. Afleiðingin er Íslandsmet í biðlistum eftir heilbrigðisþjónustu. Á biðlista hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins voru um 350 börn í byrjun ársins, þar sem um 2 ára bið er núna. Um 900 börn bíða þjónustu talmeinafræðinga. Biðin eftir þeirri þjónustu er frá 17 mánuðum og upp í 36 mánuði. Allir geta séð hvaða afleiðingar það hefur á barn og fjölskyldu þess þegar grundvallarþjónusta er ekki aðgengileg mánuðum og árum saman. Það er óboðleg staða. Biðlistar eru eftir sjúkraþjálfurum, sálfræðingum, talmeinafræðingum o.fl. Og biðlistar eru sérstaklega langir á landsbyggðunum.

Lappirnar dregnar

Börn jafnt sem aldraðir bíða á vakt ríkisstjórnarinnar. Biðlisti eftir plássi á hjúkrunarheimilum lengist en um 450 manns biðu í upphafi ársins. Allt það fólk á fjölskyldu sem bíður með þeim og býr við óvissu og álag vegna langrar biðar. Um helmingi fleiri hafa verið lengur en þrjá mánuði á biðlista eftir hnéaðgerðum núna en voru í upphafi kjörtímabilsins.

Biðlistar eru auðvitað ekki nýtt vandamál og tilvist þeirra verður vitaskuld ekki alfarið skrifuð á ríkisstjórnina. En sú stefna að lengja biðlista eftir heilbrigðisþjónustu skrifast hins vegar því miður á þessa stjórn. Stjórnin er nefnilega markviss í aðgerðum sem vitað er að hægja á kerfinu. Foreldrar barna, sem bíða eftir talmeinafræðingi eða sálfræðingi, sjá það alveg örugglega ekki sem stóra svarið hvort sálfræðingurinn sé ríkisstarfsmaður. Það sem skiptir foreldrana máli er að þjónusta barnsins sé góð, aðgengileg og niðurgreidd af ríkinu. Í dag er svo ekki, enda hefur heilbrigðisráðherra dregið lappirnar um að tryggja fjármögnun sem getur veitt fjölskyldum þá þjónustu. Þrátt fyrir að sálfræðifrumvarp Viðreisnar hafi verið samþykkt og sé orðið að lögum, með heimild til þess að gera samning við sálfræðinga, þá dugar það ekki til því ríkisstjórnin er í stríði við sjálfstætt starfandi fagaðila í heilbrigðisþjónustu.

Samstarf skilar árangri

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa gengið í takti um þessa stefnu allt kjörtímabilið. Allt þetta kjörtímabil hafa þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks stutt þessa stefnu VG. Viðreisn vill að við einblínum á þjónustu fremur en rekstarform. Lærdómur heimsfaraldurs er að saman vegnar okkur betur. Við upplifðum gott samtarf opinbera kerfisins og fulltrúa einkaframtaksins að því verkefni að verja heilbrigði þjóðarinnar. Við nýttum einfaldlega krafta þeirra fagaðila sem hér starfa og það reyndist vitaskuld þjóna hagsmunum almennings vel. Viðreisn vill að við gefum gaum þeim tækifærum sem eru í heilbrigðisþjónustunni og hættum að bjóða fólki upp á sífellda bið.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×