Skoðun

Heldur lækna­stéttin ís­lensku heil­brigðis­kerfi í gíslingu?

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir skrifar

Læknar vilja nú ólmir einkavæða heilbrigðiskerfið og gera það eins og í Bandaríkjunum þar sem fjöldi fólks hefur mjög takmarkaðan aðgang að læknisþjónustu.

Þessari meintu einkavæðingu á að koma á, í trássi við vilja meirhluta landsmanna, en skoðanakannanir hafa endurtekið sýnt að íslenskur almenningur vill áfram ríkisrekið heilbrigðiskerfi.

Það eru nefnilega svo margir læknar sem fóru í læknisfræðina, ekki vegna manngæsku eða mannkosta heldur vegna hreinnar og beinnar græðgi.

Ég er með aðra lausn.

Ég legg til að allir sem vilja, fái að læra að verða læknar. Ég legg til að settar verði upp læknadeildir bæði við HR og við Háskólann á Akureyri og við útskrifum um 600 lækna á ári í stað 60 lækna á ári. Ef Landspítalinn segist ekki geta tekið við fleiri kandídötum þá sendum við kandídata út á land, eða erlendis.

Hvaða önnur stétt á Íslandi hefur rétt til að haga sér svona?

Laun lækna mega alveg lækka um helming. Þeir þurfa ekki alla þessa peninga. Þeir eru ekki alveg svona mikilvægir. Margir eru miklu mikilvægari en þeir. Svo gera þeir alltof mikið af mistökum. Alvarlegum mistökum.

Í Rússlandi er læknisfræði kvennastétt og læknar þar eru með sömu laun og framhaldsskólakennarar.

Það er ekkert náttúrulögmál í þessum alheimi sem segir að læknar verði að vera á ofurlaunum og að almenningur eigi að borga fyrir dýran einkarekstur þeirra!

Fórnum ekki aðgangi allra að læknisþjónustu, vegna græðgi læknastéttarinnar!

Útskrifum 600 lækna á ári í stað 60! AFNEMUM NUMERUS CLAUSUS!

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir




Skoðun

Sjá meira


×