Skoðun

Ég er framapotari

Ingveldur Anna Sigurðardóttir skrifar

Stjórnmálin eru ekki alltaf tekin út með sældinni. Eins og gjarnan er raunin á umræðan það til að verða sérstaklega óvægin í garð kvenna.

Nærtækt er að fylgjast með fyrirmyndum á borð við Áslaugu Örnu og Þórdísi Kolbrúnu, sem mega þola uppnefni og svívirðingar nánast daglega vegna stjórnmálaþátttöku sinnar. Á sama tíma er aðdáunarvert að sjá hvernig þær láta engan bilbug á sér finna og sækja fram, þó orðræðan haldi stöðugt áfram.

Nýjasta dæmið um slíka orðræðu kom úr óvæntri átt. Þegar lögreglan heimsótti listasýningu í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöld hitti hún þar fyrir gesti og gangandi, eins og víðar í verslunum miðborgarinnar. Af upptökum úr búkmyndavélum lögreglumannanna, sem urðu opinberar á dögunum, má hins vegar ráða að tvær ungar konur hafi farið sérstaklega í taugarnar á laganna vörðum.

Ástæðan var þátttaka kvennanna í stjórnmálastarfi. Þannig er því lýst í samtali tveggja lögregluþjóna, þar sem rætt var að skrifa ýkta fréttatilkynningu um heimsóknina:

A: „Hvernig yrði fréttatilkynningin… 40 manna einkasamkvæmi og þjóðþekktir einstaklingar…, er það of mikið eða?“.

B: „Ekki fyrir mig, ég myndi lesa það…“. „Ég þekkti tvær stelpur þarna uppi og þær eru báðar sjálfstæðis… svona… framapotarar eða þú veist“.

Í upptökunum, sem komu að vísu seint fram á sjónarsviðið þar sem lögreglan afmáði og breytti sönnunargögnum, má greina algengan tón. Konur skulu þola uppnefni og háðsglósur fyrir það eitt að voga sér inn á vettvang stjórnmálanna. Kerlingar, puntudúkkur eða Sjálfstæðis-framapotandi stelpur. Skilaboðin eru alltaf þau sömu.

Sterkasta svarið felst í að standa einfaldlega óhaggaðar, láta hávaðann sem vind um eyru þjóta og leyfa tröllunum að verða að steini, hægt og rólega.

Höfundur er frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og framapotari.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×