Vísir hefur rætt við veitingamenn sem eru heldur óhressir með þessa heimsókn en starfsmenn skattsins tóku rúnt á staðina. Vildu athuga hvort sjóðastaða stemmdi við posana og hvort starfsmenn væru skráðir.
Um er að ræða hefðbundið eftirlit en það breytir ekki því að veitingamönnum mörgum finnst þetta lýsa heldur miklu tillitsleysi í sinn garð. Eins og fram hefur komið hafa þeir mátt lepja dauðann úr skel á tímum Covid; með allskyns takmörkunum á opnunartíma og fjölda gesta. Sumir hafa þurft að loka og er því ekki feitan gölt að flá.
Einn veitingamaður sem Vísir ræddi við sagði að hann hafi ekkert að fela og sé hlynntur aðgerðum gegn skattsvikum. Hann hafi átt gott spjall nú í morgun við starfsmann skattsins og sé sáttur. En þetta sé hins vegar spurning um tímasetningu. Beint ofan í Covid-ið. Hvort þetta væri virkilega nauðsynlegt nú loksins þegar starfsemin er að rúlla af stað; að mæta á háannatíma og nánast vera með hálfgerðan dólg fyrir framan viðskiptavinina.