Skoðun

Að vera sænskur jafnaðar­maður eða ís­lenskur

Guðbrandur Einarsson skrifar

Ég horfi gjarnan til Svíþjóðar þegar ég leita mér fyrirmynda. Svíþjóð er ríki sem lengi hefur verið stjórnað af jafnaðarmönnum og þeirra stefna hefur verið mér leiðarljós á þeirri leið sem ég hef reynt að feta á mínum pólitíska slóða.

Í Svíþjóð hef ég búið og þar leið mér vel. Þeirra velferðarkerfi er sterkt og heldur vel utan um alla landsmenn.

Viltu einfalt kerfi eða flókið?

Mér þótti það sérstakt þegar ég flutti þangað, að inn um bréfalúguna komu upplýsingar um hvernig við ættum að snúa okkur varðandi þær bætur sem við áttum rétt á s.s. barna- og húsnæðisbætur. Eitthvað af þessu gerðist reyndar bara sjálfkrafa og við þurftum ekkert að hafa fyrir því að sækja um.

Annað var á teningnum þegar við svo fluttum heim aftur. Þá kostaði það talsverða fyrirhöfn að komast inn í kerfið aftur. Upplýsingar sem við fengum að fyrra bragði voru takmarkaðar og stuðningur við fjölskyldufólk mun minni en við höfðum kynnst í Svíþjóð vegna þess að íslenska velferðarkerfið er tekjutengt í bak og fyrir.

Heilbrigðisþjónusta hinna sænsku jafnaðarmanna

Einn þáttur sem vegur þungt, þegar rætt er um velferðarkerfi, er heilbrigðisþjónusta og þar hafa Svíar staðið sig afar vel. Svo vel að að þeir hafa verið tilbúnir til að taka við sjúklingum frá Íslandi sem gefist hafa upp á löngum biðlistum og að lifa mánuðum eða árum saman við sársauka og þjáningar hér heima.

Fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu vefst ekkert fyrir jafnaðarmönnum fyrirheitna landsins og þar starfa m.a. einkareknar stofur sem taka gjarnan við sjúklingum frá Íslandi. Jafnaðarmenn á Íslandi, sem kenna sig við Samfylkinguna, virðast einhverra hluta vegna sjá einkarekinni heilbrigðisþjónustu allt til forráttu og telja að opinberir aðilar séu þeir einu sem veitt geta almennilega þjónustu á þessu sviði.

Á Íslandi eru 72 heilsugæslur á vegum hins opinbera en einungis fjórar sjálfstæðar heilsugæslustöðvar, 5% af öllum heilsugæslum. Í Svíþjóð eru einkareknar heilsugæslustöðvar 496 sem er um 43% af heildarfjöldanum, sé miðað við tölur frá 2018.

Einhverra hluta vegna virðast sænskir jafnaðarmenn treysta markaðnum betur en íslenskir Samfylkingarjafnaðarmenn.

Ég kýs að leita í smiðju þeirra sænsku.

Höfundur leiðir lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi í næstu alþingiskosningum.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×