Hæstiréttur komst í gær að þeirri niðurstöðu að Íbúðalánasjóði hafi verið heimilt að innheimta svokölluð uppgreiðslugjöld, og sneri þannig við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í fyrra. Milljarðar voru í húfi fyrir um fjórtán þúsund lántakendur. Hæstiréttur ómerkti hins vegar á sama tíma svipað mál og vísaði því til meðferðar í héraði á ný. Málin fóru fyrir Hæstarétt að kröfu íslenskra stjórnvalda, sem töldu mikilvægt að fá endanlega niðurstöðu í þau hið fyrsta.
„Við erum mjög ánægð með það að málið hafi verið tekið fyrir af Hæstarétti án þess að þurfa millilendingu í Landsrétti. Það tryggði að í þessu stóra álitamáli er fengin niðurstaða, að minnsta kosti í öðru málinu, hitt er sent aftur heim í hérað. Það er mikilvægt að fá úr þessu skorið. Það er það sem ég lagði áherslu á allan tímann að fá niðurstöðu í þetta mál,” segir Bjarni Benediktsson.
Uppgreiðslugjöldin hafa gert fólki erfitt fyrir að komast út á hinn almenna markað, þar sem vextir hafa verið í sögulegu lágmarki.
„Þetta fyrirkomulag var í upphafi gallað. Og það lýsir sér meðal annars í því að ríkissjóður situr uppi með 200 milljarða gat á gamla íbúðalánasjóði, 200 milljarða gat. Þessi uppgreiðslugjöld áttu að koma til móts við það að fólk væri að fá lægri vexti, síðan breytist allt vaxtaumhverfið og allar forsendur. Og sumir losnuðu út án uppgreiðslugjalds á meðan aðrir eru fastir í því fyrirkomulagi,” segir Bjarni.
Nú sé loks komin niðurstaða, þó svipað mál fari aftur fyrir héraðsdóm á næstu vikum eða mánuðum.
„Ég held að þetta hafi ekki verið nægilega úthugsað fyrirkomulag frá upphafi en nú er niðurstaða fengin í þetta lagalega álitamál.”