83 Palestínumenn hafa fallið á Gasasvæðinu frá því að átök brutust út á mánudag samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Gasa og sjö í Ísrael. Samkvæmt AP-fréttaveitunni eru sautján börn meðal hinna látnu á Gasasvæðinu og hátt í fimm hundruð særðir. Ofbeldi hefur færst í aukana í borgum víða á svæðinu eftir mikil mótmæli undanfarnar vikur.

Alþjóðasamtök hafa lýst yfir áhyggjum af ástandinu og kallað eftir því að vopnahlé verði gert. Egypskir embættismenn og Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst því yfir að unnið sé að sáttamiðlun í von um vopnahlé.
Á miðvikudag sagði Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísraels, sagði í vikunni að hernaðaraðgerðir Ísraelsmanna myndu standa yfir svo lengi sem þeirra væri þörf.
Loftárásir Ísraela hafa beinst að leiðtogum Hamas, húsum þeirra og vistarverum. Almennir borgarar eru þó í miklum meirihluta þeirra sem hafa fallið í árásunum.
Sex hæða íbúðabygging á Gasa var eyðilögð í loftárásum Ísraelshers á fimmtudag og lést einn maður eftir að hafa orðið fyrir eldflaug. Ismail Haniyeh, leiðtogi Hamas, sem stjórnar Gasa, sagðist ekki sjá fyrir endann á „átökunum við óvininn“ eins og staðan væri núna.
A combination picture shows a building before and after it was destroyed by Israeli airstrikes in Gaza City. Our latest photos: https://t.co/I9movMkSap 📷 Ibraheem Abu Mustafa pic.twitter.com/LZjamGogUn
— Reuters Pictures (@reuterspictures) May 12, 2021
Heilbrigðisyfirvöld á Gasa rannsaka nú dauðsföll nokkurra íbúa í nótt sem mögulega tengjast lífshættulegu gasi.
Um tvær milljónir búa á Gasa-ströndinni sem er mjög þéttbýl. Svæðið hefur verið lokað af af Ísraelsmönnum og Egyptum frá því Hamas-liðar tóku þar völd árið 2007.