Skoðun

1. maí okkar allra

María Pétursdóttir skrifar

Nú styttist í vorboðann góða, baráttudaginn okkar 1. maí. Við munum eflaust ekki geta gengið í hefðbundinni kröfugöngu en við getum hugsað um kjör okkar og breytt viðhorfinu til hagkerfisins. Ég mun halda hann hátíðlegan sem og fyrsta dag jöfnuðar í kærleikshagkerfinu sem Sósíalistaflokkur Íslands boðaði á sumardaginn fyrsta.. Eftir það ættu allir dagar að verða dagar jöfnuðar.

Hvar er björgunarhringurinn?

Við erum nefnilega kærleiksrík þjóð með stóran faðm á góðum dögum og við rekum samfélagið okkar í nafni velferðar en því miður með pískinn á bakinu og á hörkuna að vopni. Öryrkjar eiga þennan dag jafn mikið og hinar vinnandi stéttir enda eru langflestir öryrkjar með sögu af vinnumarkaðnum og sumir jafnvel búnir að þræla sér út við óeðlilegar aðstæður með þeim afleiðingum að þeir hafa fallið útbyrðis fyrir aldur fram.

Ef þú veikist og dettur úr námi eða vinnu ertu oftast í langan tíma að finna björgunarhringinn nema veikindi þín séu þess betur skilgreind og valdi vel sýnilegri fötlun eða sjúkrahúsvist. Þó ekki svo sýnilegri að fólk sjái ekki persónuna á bak við fötlunina sem oft vill verða einnig. Og þú ert kannski á endanum dreginn á þurrt en í millitíðinni hefurðu orðið fyrir svo miklum súrefnisskorti að þú átt í öndunarerfiðleikum þegar kemur að landi. Já það er nefnilega allt of algengt að kerfið grípi ekki þá sem falla milli skers og báru og viðurkenni illa ósýnilega sjúkdóma.

Munið þið eftir starfsgetumatinu?

Ég held það sé einsdæmi að innleiða starfsgetumat án þess að talað sé um það upphátt eða það kallað sínu rétta nafni. Það er hins vegar það sem hefur gerst á Íslandi. Hér hefur markvisst verið dregið úr örorkumati og óvinnufært fólk fær ítrekaðar synjanir um örorku á þeim forsendum að endurhæfing sé ekki full reynd en það virðist sem fólki standi hún heldur ekki til boða nema að takmörkuðu leyti. Endurhæfingaúrræði VIRK hefur verið þokkalega öflugt við að kippa inn fólki sem verður fyrir veikindum en það passa þó heldur ekki allir inn í kassana sem þeir hafa smíðað þrátt fyrir að þar sé kannski gott starf unnið einnig. Þá er algengt að fólk sem veikist treysti sér ekki endilega strax í endurhæfingu heldur þarf það tíma til að láta sér batna nægilega vel fyrst. Þá er ekki hægt að snúa tila baka eftir synjun frá TR og þar er algjör skortur á úrræðum. Nú þegar hafa lagaheimildir lengt í þeim spotta sem fólk getur verið í endurhæfingu og TR virðist vinna nokkuð stíft eftir þeirri reglu að veita ekki yngra fólki en þrítugu örorkumat. Eins og það er sjálfsagt og kærleiksríkt að reyna að aðstoða fólk við að koma undir sig fótunum á ný í gegnum endurhæfingu þá er það ómanneskjulegt að gera það með því að halda fólki undir eða við fátæktarmörk á meðan á því stendur, hvað þá að synja veiku fólki alfarið um örorkumat ef endurhæfing hefur ekki skilað sér á skikkanlega löngum tíma. Hvar er virðingin við veikt fólk? Hvar er skilningurinn á aðstæðum fólks og raunsætt mat á vinnumarkaðnum.

Ha, er öryrkjum að fækka?

Þá eru vinnustaðir enn ekki að leggja sig fram um að bjóða öryrkjum hlutastörf þrátt fyrir að fleiri vilji vinna en hafa tækifæri til þess. Hvergi hefur þessi stefnubreyting verið rædd opinberlega og enn tala sjálfskipaðir spekingar, stjórnmálamenn og jafnvel fólk sem sjálft glímir við fötluna eða veikindi, og hefur étið það upp eftir hægrimönnum að hér sé að eiga sér stað gríðarleg fjölgun öryrkja. Það er beinlínis ósatt og afar ómanneskjulegur málflutningur. Ef við skoðum tölurnar á mælaborði TR síðust árin eða áratuginn sjáum við að það er engin aukning að eiga sér stað heldur áframhaldandi fækkun ef miðað er við fólksfjölda og kynslóðafjölgun. Æ fleiri þurfa því að leita til sinna sveitarfélaga eftir smánarlega lélegri mánaðarframfærslu til að eiga í sig og á. Þetta er gert á sama tíma og atvinnuleysi eykst vegna heimsfaraldurs. Í dag er þó skárra að vera á atvinnuleysisbótum en örorku eða endurhæfingastyrk hvað þá styrk frá sveitarfélaginu. En atvinnuleysisbætur eru þó ekki greiddar til langs tíma heldur atvinnulausir allt of oft einnig að enda á framfæri sveitarfélaganna. Þannig ríkir hér þegjandi samkomulag valdhafa um að reyna að svelta fólk til vinnu þrátt fyrir að vera óvinnuvært eða fá hreinlega enga atvinnu. Þá er öryrkjum enn haldið í örbyrð og er þeim gert að éta upp eigur sínar ef einhverjar eru.

Viðbrunninn hafragrautur

Fjármálaráðherra talar um hversu örlát þessi ríkisstjórn hafi verið við öryrkja og talar í hafragrautum niður til öryrkja við hvert tækifæri. Hann minnist ekkert á að hér hafi öryrkjar ekki þurft að greiða skatt fremur en þeir lægst launuðu árið 1997 en frá Davíðstíma og allt frá 1990 hefur skattbyrði lífeyrisþega og þeirra lægst launuðu aukist gríðarlega. Hvar er kærleikurinn í því og hvar þykist fólk sjá einhverjar brauðmylsnu bæta hag fólks. Kannski í röðinni hjá hjálparsamttökum sem hafa aldrei verið lengri en þetta árið? Nei, ef vel er að gáð er engin mylsna þar og þá hefur allt vatnið gufað upp af þessum blessaða hafragraut í kaupmáttarskerðingum eða hann brunnið við og er ekki upp í nös á ketti.

Kærleikurinn borgar sig

Það að reka samfélagið í sífelldum skorti og vansæld þar sem veikt og fatlað fólk hefur enga leið til að bæta hag sinn, hvorki líkamlega heilsu, veraldlegt umhverfi sitt eða sjálfstætt líf er dýr samfélag. Það er líka dýrt að sinna öldruðum illa og seint en það kostar tapaðar vinnustundir og heilsu hjá aðstandendum. Norrænar rannsóknir sýna það svart á hvítu að ef fjárfest er í kærleiksríku samfélagi skilar það sér í krónum og aurum. Þetta vita sósíalistar og boða því umsnúning á kerfunum okkur á þá leið að byggja undir fólk og aðstoða það við sjálfshjálp fremur en að kippa undan því fótunum með niðurskurði og skerðingum og láta það éta upp eignir sínar og tapa heilsu í harkinu.

Sósíalismi er kærleiksrík stefna

Það hefur ekki ein einasta þjóð í heimi fallið á hliðina við það að gera of vel við íbúa sína en margar þjóðir hafa fallið við hið gagnstæða eða að moka undir þá vel settu í formi skattalækkana og ívilnana ofan frá, eins og hér hefur verið gert. Við í sósíalistaflokknum viljum fjárfesta í heilsu, fjárfesta í snemmtækum inngripum og fjárfesta í kærleiksríku kerfi. Kerfi sem hefur innbyggða manngæsku og virðingu við fólk. Sumir vilja jafnvel kerfið burtu á þeim forsendum að það sé eitthvert bákn. Það þykir okkur sósíalistum af og frá. Það má hafa kerfi þokkalega einföld og ef þau virka fyrir fólkið eins og þau eiga að virka og eru hjálpleg en ekki niðurrífandi þá eru þau góð. Kerfið er heldur ekki eitthvað skrímsli sem kemur okkur ekki við þó búið sé að skrapa utan af því núna og jafnvel gera það óskiljanlegt í gegnum frjálshyggjutíma síðustu ára. Nei, kerfið er ekkert annað en samtakamáttur og samkomulag okkar almennings um að reka hér sameiginlegt samfélag. Reka hér mennta- og heilbrigðiskerfi, samgöngu- og nýsköpunarkerfi, dóms- og fjármálakerfi Já og síðast en ekki síst velferðar- og húsnæðiskerfi því það er eins og stjórnvöld vilji að við gleymum því að húsnæði sé mannréttindi. Við viljum kerfi sem miðast við velferð og jöfnuð en eykur ekki á sundrung og stéttaskiptingu og telur fólki trú um að það þurfi að skara fram úr eða þjást til að geta átt í sig og á. Þá viljum við auðlindir í eigu fólksins en ekki í vasa auðmanna auk þess sem almenningur þarf að taka völdin af auðmönnum svo hér sé hægt að halda hátíðlegan dag jöfnuðar og kærleika á hverjum degi.

Við getum hæglega rekið hér gott, kærleiksríkt og styðjandi kerfi sem við verðum stolt af.

Kjósum kærleika og jöfnuð manna á milli og kjósum því X-J í vor.

Hægt er að lesa nánar um Kærleikshagkerfið hér.

Og stefnur flokksins.

Höfundur er er félagi í Sósíalistaflokks Íslands og formaður Málefnastjórnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×