Margeir segir að yfirheyrslum sé lokið en vill ekki upplýsa um hvort maðurinn játi sök í málinu. Árásin náðist hins vegar á upptöku þar sem sést hvernig hinn grunaði veitist ítrekað að öðrum manni með hníf á veitingastaðnum.
Heimildir fréttastofu herma að viðkomandi eigi talsverðan sakaferil að baki, meðal annars vegna fíkniefna- og ofbeldisbrota. Þá herma heimildir fréttastofu jafnframt að maðurinn hafi verið á veitingastaðnum með öðrum manni sem á einnig brotaferil að baki og var nýverið til rannsóknar vegna alvarlegra ofbeldisbrota.
Aðspurður segir Margeir að ekki hafi verið talin ástæða til að fara fram á gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna á hendur manninum. Þá sé málið að mestu upplýst. Áverkavottorða sé beðið og í framhaldinu fari málið til ákærusviðs lögreglu sem tekur ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út á hendur manninum.
Sá sem var stunginn er á batavegi.
Árásin náðist á upptöku, en rétt er að vara viðkvæma við myndskeiðinu.