Erlent

Hyggjast smita allt að 90 heilbrigða einstaklinga í rannsóknarskyni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Viljugir sjálfboðaliðar eru nú hvattir til að skrá sig til þátttöku á netinu.
Viljugir sjálfboðaliðar eru nú hvattir til að skrá sig til þátttöku á netinu. epa/Andy Rain

Á næstu vikum verður nýju rannsóknarverkefni hrint úr vör þar sem heilbrigðir einstaklingar verða smitaðir af SARS-CoV-2. Tilgangurinn er að kanna betur ónæmisviðbrögð líkamans og hvernig veiran berst á milli einstaklinga.

Um er að ræða þátt í Human Challenge Model, sem er samstarfsvettvangur breskra stjórnvalda, Imperial College London, The Royal Free London NHS Foundation Trust og einkafyrirtækisins hVIVO.

Heilbrigðum einstaklingum á aldrinum 18 til 30 ára býðst að taka þátt en markmiðið er að þátttakendur verði allt að 90. Þeir verða undir vökulum augum heilbrigðisstarfsmanna og rannsakenda allan sólahringinn.

Ein spurning sem vísindamennirnir vonast til þess að geta svarað er það hversu lítið magn af veirunni nægir til að smita en megintilgangur rannsóknarinnar er að stuðla að aukinni þekkingu til að vera betur í stakk búin til að takast á við Covid-19.

Þá er ekki síst horft til frekari þróunar bóluefna gegn veirunni.

Til stendur að notast við afbrigðið sem áður fór manna á milli á Bretlandseyjum, það er að segja ekki hið nýja „breska“ afbrigði.

Stjórnvöld hafa lagt verkefninu til 33,6 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×