Þegar hefur verið greint frá viðræðum þeirra Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar við lyfjarisann Pfizer, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur einnig verið rætt við fleiri aðila um svipaðar hugmyndir.
Ekki er þó greint frá því í frétt blaðsina hvaða fyrirtæki um ræðir og raunar er þess heldur ekki getið hvaða aðilar hér á landi hafi átt í slíkum viðræðum.
Viðræðurnar við Pfizer munu vera lengst komnar og mun það skýrast í vikunni. Þegar hefur verið greint frá því að Pfizer hafi samið við Ísraela um að þeir taki þátt í tilraunaverkefni.
Í samtali við Vísi í gærkvöldi sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, það ekki útiloka að lyfjafyrirtækið gangi til samninga við íslensk stjórnvöld.
„Málið er ekki dautt, það er það eina sem ég vil segja,“ sagði Kári.
Þá væri Ísrael að hjálpa Pfizer að ná í allt aðrar upplýsingar en Ísland myndi gera.
„Mér sýnist að það sem Ísraelar ætli að gera sé að kanna hvort að það sé hægt að hafa lengri bil á milli annars og fyrsta skammtar af bóluefni Pfizer og síðan að veita þeim upplýsingar um útkomuna úr bólusetningunni almennt.“
Á hinn boginn hefðu Kári og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagt til rannsókn sem kanni hjarðónæmishugtakið og reyna að sýna fram á að það sé meira heldur en kenning.
„Það sem við erum að leggja til við þá er tiltölulega einföld tilraun til að reyna að skilja það hvernig maður getur kveðið í kútinn svona veiru án þess að bólusetja alla þjóðina. Það hefur í rauninni enginn sýnt fram á hverjar þessar stærðir eru í hjarðónæminu.“