Skoðun

Hver vill alræðisvald?

Heiðar Guðjónsson skrifar

Fjarskiptakerfi og rafkerfi eru undirstaða hinar margumtöluðu fjórðu iðnbyltingar. Það þarf því að huga vel að því hvernig uppbygging þeirra kerfa er háttað til framtíðar. Ísland stendur framarlega en þó eru lönd sem standa okkur framar og auðvelt er að leita til þeirra og læra af þeirra mistökum, frekar en að endurtaka þau.

Ríkisstjórnin ákvað í snarhasti í byrjun árs að setja saman starfshóp til að skoða uppbyggingu fjarskiptakerfa á Íslandi. Aldrei var opinberað hverjir voru í þeim hópi, hvað þá gefið færi á fundum með hópnum. Varla telst það í takt við tal á tyllidögum um opna og gegnsæja stjórnsýslu.

Í gær var birt skýrsla starfshópsins. Þar kemur fyrst fram hverjir skipuðu hópinn. Það er svo í takt við annað í þessu ferli að tillögurnar eru fullkomlega ólýðræðislegar. Þar er lagt til að ákvarðanir sem teknar verði muni fara algjörlega fram hjá Póst og fjarskiptastofnun, sem er eftirlitsaðili stjórnvalda á fjarskiptamarkaði. Enn fremur er lagt til að ákvarðanir verði undanþegnar reglum stjórnsýslulaga um rökstuðning og andmæli. Með öðrum orðum er lagt til að alræðisvald verði sett í hendur embættismanna ráðuneyta, sem eftirlitsstofnun má ekkert hafa um að segja og hlutaðeigandi fyrirtæki eru svipt andmælarétti.

Þegar verið er að tala um uppbyggingu fjarskiptakerfa sem einkafyrirtæki hafa byggt upp af myndarskap fyrir tugi milljarða þá finnst stjórnvöldum eðlilegt að afnema alla varnagla sem þegnar hafa í samskiptum sínum við yfirvöld. Þetta hefði þótt eðlilegt í Austur-Þýskalandi fortíðar en hvernig kemur svona hugmynd fram í dag á Íslandi? Ætlar ríkisstjórnin og svo Alþingi að taka þátt í svona aðför að lýðræðinu og grundvallarréttindum þegnanna?

Höfundur er forstjóri Vodafone og Stöðvar 2.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×