Erlent

Ameríski ræðismaðurinn verður í höfuðstöðvum danska hersins

Kristján Már Unnarsson skrifar
Höfuðstöðvar danska hersins á Grænlandi, Arktisk Kommando, eru við höfnina í Nuuk. Bandaríski ræðismaðurinn fær inni í þessari byggingu.
Höfuðstöðvar danska hersins á Grænlandi, Arktisk Kommando, eru við höfnina í Nuuk. Bandaríski ræðismaðurinn fær inni í þessari byggingu. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Bandaríska ræðismannsskrifstofan á Grænlandi verður staðsett í höfuðstöðvum danska hersins í Nuuk. Þetta tilkynnti Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku, á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn fyrir helgi, að því er grænlenskir fjölmiðlar greina frá.

Sú sveit danska hersins sem annast Grænland og norðurslóðir kallast Arktisk Kommando. Bækistöð hennar í Nuuk er í fjögurra hæða byggingu ofan við höfnina og þar eru að jafnaði um fimmtíu hermenn staðsettir.

Myndir af byggingunni mátti sjá í frétt Stöðvar 2 fyrir þremur árum.

Sjá einnig hér: Komu í veg fyrir að Kínverjar keyptu herstöð á Grænlandi

Það var í lok ágústmánaðar í fyrra sem Bandaríkjastjórn tilkynnti að hún hygðist opna ræðismannsskrifstofu í Nuuk. Sú tilkynning kom aðeins fáum dögum eftir að danski forsætisráðherrann hafði með eftirminnilegum hætti hafnað ósk Trumps forseta um að kaupa Grænland og lýst henni sem fáránlegri.

Þegar hefur verið ákveðið að fyrsti ræðismaðurinn verði Sung Choi. Hann hefur haft aðsetur í danska sendiráðinu í Kaupmannahöfn undanfarin misseri en samtímis verið með annan fótinn á Grænlandi. Hann mun svo flytja til Nuuk þegar ræðismannsskrifstofan tekur til starfa, sem verður á þessu ári, en nánari tímasetning hefur ekki verið tilkynnt.

Bandaríski sendiherrann í Danmörku, Carla Sands, í miðið. Til vinstri er Ane Lone Bagger, utanríkis- og menntamálaráðherra Grænlands, og til hægri Sung Choi sendiráðsritari, verðandi ræðismaður Bandaríkjanna á Grænlandi. Myndin var tekin í maí í fyrra.Mynd/Sendiráð Bandaríkjanna í Danmörku.

Sendiherrann Carla Sands, sem áður en hún gerðist diplómat var kunn leikkona, meðal annars úr sjónvarpsþáttaseríunni Glæstum vonum, fór yfir ástæður þess að Bandaríkin ákváðu að veita Grænlendingum efnahagsaðstoð í grein í síðustu viku.

Sjá nánar hér: Segir stuðning við Grænlendinga svar við ásælni Rússa og Kínverja


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×