Innlent

Með hlaupabretti og upphífingarstöng í skólastofunni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gunnar Jarl Jónsson, kennari.
Gunnar Jarl Jónsson, kennari.

Hreyfing gegnir veigamiklu hlutverki í almennu skólastarfi í Langholtsskóla þar sem nemendur geta tekið sér hvíld frá lærdómnum og notað æfingatæki sem hafa verið sett upp í skólastofunni.

Í kennslustofu sjöttu bekkinga við Langholtsskóla eru að finna hlaupabretti, hjól, hringi, rimla og margt fleira. Um er að ræða tilraunaverkefni sem að stuðla að fjölbreyttari umhverfi og bættum námsárangri, með betri andlegri og líkamlegri heilsu.

„Við fáum krakkana til að hreyfa sig, fara út, fá ferskt loft og hreyfa sig í tímum í stuttum lotum til að efla aðeins líkama og heilsu,” segir Gunnar Jarl Jónsson, kennari við Langholtsskóla.

Gunnar segir krakkana fara í tækin þegar þeir þurfa á hvíld á lærdómnum að halda. Sumir slái jafnvel tvær flugur í einu höggi og lesi á meðan þeir hreyfa sig. „Þegar við erum í ákveðinni vinnu, erum búin að leggja inn einhverja hluti og þau eru að vinna þá geta þau bara staðið upp þegar þeim hentar.”

Sverrir Már og Eva Karítas eru vonum sátt við að geta hreyft sig í tímum. Bæði æfa þau fótbolta, eru í íþróttum í skólanum, og hreyfa sig að minnsta kosti þrisvar á dag í tímum. Þau segjast ekkert verða þreytt á hreyfingunni. 

Hann segir kyrrsetuna henta fæstum og því hafi verkefnið gengið vonum framar.

„Þau eru mjög dugleg að hreyfa sig og taka bæði vel í tækin og að fara út að hlaupa í hvernig veðri sem er, þannig að ég myndi segja að viðhorf þeirra sé til algjörrar fyrirmyndar.”

Stefnt er að því að gera úttekt á hvaða áhrif aukin hreyfing hefur haft á virkni, líðan og einbeitingu nemenda.

„Vonandi eftir veturinn sjáum við árangurinn. Og það verður gaman að sjá hvort tækin fari í fleiri skóla.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×