Íslenski boltinn

Þrenna Murielle tryggði toppsætið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Murielle Tiernan hefur verið stórkostleg í sumar.
Murielle Tiernan hefur verið stórkostleg í sumar. Tindastóll

Tindastóll tryggði endanlega toppsætið í Lengjudeild kvenna með 4-2 sigri á ÍA í kvöld. Að venju var það Murielle Tiernan sem fór fyrir sínu liði en hún skoraði þrennu í kvöld. Leikurinn fór fram inn í Akraneshöllinni.

Stólarnir komust yfir strax á 3. mínútu þegar Jaclyn Ashley Poucel varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Erla Karítas Jóhannesdóttir jafnaði metin fyrir ÍA um miðbik fyrri hálfleiks en þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum skoraði Murielle sitt fyrsta mark í kvöld og kom Tindastól þar með yfir.

Staðan orðin 2-1 gestunum í vil og þannig var hún allt fram á 78. mínútu leiksins. Þá bætti Murielle við öðru marki sínu og örskömmu síðar hafði hún fullkomnað þrennu sína. Staðan orðin 4-1 og ljóst að Tindastóll væri búið að tryggja sér toppsætið.

Ashley Poucel skoraði í uppbótartíma, að þessu sinni í rétt mark, og lokatölur því 2-4 á Akranesi í kvöld. 

Sjá einnig: „Enn að reyna að átta mig á því að þetta sé raunverulegt“

Tindastóll er eftir sigur kvöldsins með 46 stig á toppi deildarinnar. Liðið hefur unnið 15 leiki, gert eitt jafntefli og aðeins tapað einum leik. Á sama tíma er ÍA í 8. sæti með 15 stig en liðið tryggði sæti sitt í deildinni að ári með sigir á Fjölni í síðustu umferð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×