Skoðun

Um les­skilning og betri vitund þeirra sem nú leita að nýju stjórnar­skránni

Kristinn Karl Brynjarsson skrifar

Nú er enn eina ferðina í gangi átak til þess að fá þjóðina til þess að trúa því að hún hafi kosið yfir sig nýja stjórnarskrá þann 20. okóber 2012. Hvergi var þó að sjá á kjörseðlinum í þeim kosningum að kosið hafi verið um hvort að tillögur stjórnlagaráðs, eins og þær litu út þá, ættu að verða að nýrri stjórnarskrá eður ei. Hefði svo verið, þá hefðu fyrir það fyrsta spurningar 2-6 á kjörseðlinum verið marklausar. Því eins og að jákvætt svar við spurningu eitt átti að túlka það að tillögurnar, eins og þær litu þá út, væri samþykktar af þjóðinni sem ný stjórnarskrá, þá hefði neikvætt svar þýtt það að þjóðin hafnaði þeim alfarið. Þetta er þó skrifað með þeim fyrirvara að sá sem þetta skrifar hafi fengið alveg eins kjörseðil og allir aðrir sem kusu í þessu ráðgefandi þjóðaratkvæði.

Efst á kjörseðlinum stóð eftirfarandi: “Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd, skv. ályktun Alþingis 24. maí 2012. Spurningarnar voru svo eins og áður segir sex talsins:

  1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýju frumvarpi að stjórnarskrá? Já eða nei.
  2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? Já eða nei.
  3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? Já eða nei.
  4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er? Já eða nei.
  5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar af á landinu vegi jafnt? Já eða nei.
  6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? Já eða nei.

Neðst á kjörseðlinum er svo eftirfarandi texti: “Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður í þinginu og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt þá skal rjúfa Alþingi og kjósa nýtt þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi frumvarpið óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu forseta. Stjórnlagaráð hefur skilað Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Verði það lagt fram sem frumvarp á Alþingi þá fær það þá meðferð sem lýst hefur verið.”

Svo mörg voru þau orð. Hvergi kemur fram á kjörseðli að kosið væri um beinni kosningu hvort að tillögur stjórnlagaráðs, eins og þær litu út ættu að verða að nýrri stjórnarskrá. Heldur hvort að leggja ætti tilteknar tillögur til grundvallar nýju frumvarpi að stjórnarskrá. Það var gert, en þáverandi stjórnarmeirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna með stuðningi Hreyfingarinnar hafði ekki til þess afl eða stuðning í þinginu til þess að leiða málmeðferðina til lykta. Því fór sem fór og tillögur stjórnlagráðs sem slíkar, lentu þar í ákveðinni blindgötu sem þær munu liggja í um aldur og ævi eða þangað til að einhver stjórnmálaflokkur eða flokkar ákveða að leggja þær fram að nýju sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Fengi það frumvarp þá málsmeðferð sem þingsköp segja til um og það þá ráðast á þingstyrk þeirra sem fyrir frumvarpinu mæla, hversu langt sú málsmeðferð mun ná.

Hvort að loforð þáverandi stjórnvalda um að tillögurnar yrðu samþykktar sem ný stjórnarskrá, hafi legið fyrir eða ekki breytir engu um. Það að er bara til ein leið til þess að breyta stjórnarskrá eða henda núgildandi stjórnarskrá út fyrir nýja.

Er sá leiðarvísir og lagatexti mjög skýr og einfaldur í 79. gr. núgildandi stjórnarskrár. En þar stendur: “ Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki … 1) skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki [Alþingi] 1) ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.”

Þessar kosningar þann 20. október 2012 eða öllu heldur niðustaða þeirra skuldbundu ekki Alþingi til eins eða neins, en voru þó sú ráðgefandi niðustaða að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýju frumvarpi. En ekki að tillögurnar ættu að verða að nýrri stjórnarskrá. Að halda hinu gagnstæða fram er í besta falli hrein og klár þvæla en í raun gróf tilraun sögufölsunar og engum þeim sóma sem gegn betri vitund slíka iðju stundar. En kannski veit bara allt þetta langskólagengna fólk og aðrir betur en alþýðupiltur úr Breiðholtinu með grunnskólapróf og meirapróf að auki?

Höfundur er bílstjóri.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×