Kínverjar halda nú heræfingar á Taívansundi, á sama tíma og bandarískur erindreki heimsækir eyríkið. Yfirvöld í Kína segja heræfingunum ætlað að tryggja fullveldi ríkisins. Í dag gagnrýndi talsmaður Utanríkisráðuneytis Kína bæði Bandaríkin og Taívan fyrir aukið samráð og að „valda vandræðum“. Hann vísaði þó ekki beint til heimsóknar Keith Krach, aðstoðarinnanríkisráðherra og æðsta erindreka Bandaríkjanna sem heimsækir Taívan í áratugi.
Talsmaðurinn, Ren Guoqiang, sagði einnig að Bandaríkin gætu ekki stjórnað Kína í gegnum Taívan og að Taívan gæti ekki reitt sig á útlendinga til að byggja sig upp.
Ren varpaði þar að auki fram lítt dulinni hótun og sagði:
„Þeir sem leika sér að eldi munu brenna sig.“
Varnarmálaráðuneyti Taívan segir þar að auki að 18 herþotum, tveimur sprengjuvélum og 16 orrustuþotum, hafa verið flogið yfir Taívansund í gær. Orrustuþotur voru sendar til móts þeirra.
Kínverjar hafa haldið fjölda heræfinga á undanförnum vikum.
Kínverjar hafa einnig mótmælt fundi Kelly Craft, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum, með James Lee, sem stýrir óformlegu sendiráði Taívan í Bandaríkjunum. Þau funduðu í New York á miðvikudaginn og ræddu sín á milli hvernig hægt væri að auka aðkomu Taívan að Sameinuðu þjóðunum.
Yfirvöld í Kína líta á Taívan sem eigið landsvæði og hafa jafnvel hótað að ná þar tökum með valdi. Taívan hefur verið með heimastjórn frá 1950 og er í reynd sjálfstætt þrátt fyrir að hafa aldrei lýst formlega yfir sjálfstæði frá Kína.
Sjálfstæðissinnum hefur þó verið að vaxa ásmegin í Taívan á undanförnum árum. Haldnar voru kosningar í janúar þar sem sjálfstæðissinnar fengu rúm 57 prósent atkvæða.
Sjá einnig: Sjálfstæðissinnar vinna yfirburðasigur í Taívan
Síðan kosningarnar fóru fram í janúar hafa kínversk herskip sést mun oftar en áður á siglingu nærri Taívan og það sama má segja um orrustuþotur og sprengjuflugvélar. Þeim hefur verið flogið oftar að Taívan en áður og jafnvel nær.
Eins og flest önnur ríki eiga Bandaríkin í rauninni ekki í formlegum samskiptum við Taívan. Bandaríkin hafa þó lengi stutt við bakið á Taívan og eru til að mynda það ríki sem selur þeim mest vopn. Undir stjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hafa samskiptin við Taívan aukist til muna en Bandaríkin hafa frá því 2018 átt í viðskiptastríði við Kína.
Til marks um það, þá heimsótti Alex Azar, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Taívan í byrjun ágúst. Hann var þá æðsti embættismaðurinn sem heimsótt hafði Taívan um langt skeið. Þeirri rannsókn var harðlega mótmælt í Peking.