Skoðun

At­huga­semdin sem Svavar Hall­dórs­son eyddi

Páll Steingrímsson skrifar

Svavar Halldórsson, fyrrverandi fréttamaður, vill ekki sjá umræðu um vinnubrögð fréttamanna Ríkisútvarpsins og eyddi athugasemd sem ég skrifaði við pistil sem hann birti á Facebook um þáttagerð Samherja. Ég birti því athugasemdina lítillega breytta á þessum vettvangi enda tel ég að spyrna verði fótum við ritskoðun af þessu tagi.

Pistill Svavars, sem er maður Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks og fyrrverandi ritstjóra Kastljóss, var fullur af fúkyrðum og þar var því fundið flest til foráttu að Samherji hafi ráðist í framleiðslu sjónvarpsþátta. Fyrsti þáttur Samherja fór í loftið 11. ágúst síðastliðinn en þar var fjallað um vinnubrögð fréttamanna Ríkisútvarpsins við gerð Kastljóssþáttar um Samherja hinn 27. mars 2012 þar sem sagt var frá meintri sölu Samherja á karfa á undirverði til erlendra dótturfélaga. Í Kastljósi var umfjöllunin sögð byggja á „skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs“ og var ítrekað vísað til þessarar skýrslu. Þannig var áhorfendum talin trú um að umfjöllunin byggði á skýrslu ríkisstofnunar sem hafði að geyma efnislega niðurstöðu.

Í heimildarþætti Samherja kom fram að Verðlagsstofa skiptaverðs hefði aldrei samið skýrslu vegna málsins og vitnað var í ný og áður óbirt gögn frá stofnuninni því til staðfestingar. Eftir að þáttur Samherja var sýndur staðfesti Verðlagsstofa þetta með yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu stofnunarinnar. Þar segir að um hafi verið að ræða Excel-skjal án niðurstöðu. „Ekki var skrifuð sérstök skýrsla af hálfu Verðlagsstofu af þessu tilefni og ekki lagt efnislegt mat á þær upplýsingar sem þarna voru dregnar saman,“ segir í yfirlýsingunni.

Allar fullyrðingar úr Kastljósþættinum voru rangar

Í pistli sínum um þáttagerð Samherja fjallaði Svavar Halldórsson ekkert um vinnubrögð Ríkisútvarpsins. Þá blandaði hann saman Seðlabankamálinu og ásökunum á hendur Samherja vegna starfseminnar í Namibíu. Samherji hefur gefið það út að fyrirtækið muni fjalla um þær ásakanir og bíð ég spenntur eftir því. En við skulum halda okkur við það sem Samherji hefur fjallað um á þessum tímapunkti. Svavar segir í pistli sínum að innihald „skýrslunnar“ frá Verðlagsstofu skipti höfuðmáli. Þá er mikilvægt að halda til haga að hvorki Samherji né nokkur nokkur starfsmaður félagsins hefur verið sakfelldur fyrir gjaldeyrisbrot. Samherji og starfsmenn fyrirtækisins sluppu því ekki á tæknilegum atriðum.

Í því sambandi ber að halda nokkrum staðreyndum til haga:

a) Sérstakur saksóknari skoðaði fiskverðið hjá Samherja í tvö ár og felldi málið niður. Það fól auðvitað í sér efnislega athugun.

b) Skattrannsóknarstjóri skoðaði fiskverðið líka og lokaði málinu. Það fól í sér efnislega athugun af hálfu embættisins.

c) Seðlabankinn tók fiskverðið hjá Samherja aftur til skoðunar og lokaði málinu. Það var í annað sinn sem Seðlabankinn tók þennan þátt málsins til efnislegrar athugunar.

Þetta þýðir að allar fullyrðingar úr Kastljósþættinum reyndust rangar. Þá er mikilvægt að undirstrika að Samherji vann fullnaðarsigur í Seðlabankamálinu með dómi Hæstaréttar hinn 8. nóvember 2018.

Gífuryrði Svavars Halldórssonar virðast fyrst og fremst beinast að því að Samherji kaus að koma sjónarmiðum sínum beint og milliliðalaust á framfæri með þáttagerð á YouTube í stað þess að láta RÚV matreiða málið ofan í þjóðina. Samherji hefur aldrei sagst vera fjölmiðill og er ekki að miðla hefðbundnum fréttum heldur upplýsingum um eigin málefni. Það er nokkuð athyglisvert að RÚV geri athugasemdir við það en ekki þegar kaupsýslumaðurinn Bill Browder mætti í Kastljósviðtal árið 2015. Fyrirtæki hans, Hermitage Capital, hefur búið til sambærileg myndbönd á YouTube án þess að birta upplýsingar um framleiðsluna og hverjir standa að henni. Mig rekur ekki minni til þess að Kastljós hafi gert athugasemdir við það. Velta má fyrir sér hver sé munurinn á þáttagerð Samherja og Hermitage Capital. Mega erlend fyrirtæki miðla upplýsingum til almennings á YouTube en ekki Samherji? Þá er mikilvægt að fram komi að fjöldi íslenskra stofnana og fyrirtækja framleiðir myndbönd og annað efni til að miðla upplýsingum til almennings. Í því sambandi er nærtækt að nefna Landspítalann sem er stórtækur í sjónvarpsþáttagerð og er með sitt eigið hlaðvarp. Má Landspítalinn gera sjónvarpsþætti en ekki Samherji?

Gengið milli ríkisstofnana

Í stað þess að fjalla um vinnubrögð Ríkisútvarpsins og þá staðreynd að starfsfólk RÚV getur ekki sannað fullyrðingar sínar úr Kastljósi er farið fram á ritvöllinn með fúkyrðum. Það gera þeir sem hafa vondan málstað að verja. Núverandi og fyrrverandi starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa þyrlað upp ryki í stað þess að fjalla efnislega um þær upplýsingar sem komu fram í þáttum Samherja.

Í fyrsta þætti Samherja kom fram að starfsmaður RÚV hafði gengið á milli ríkisstofnana og kom því til leiðar að ríkisstofnun fór í húsleit og kærði menn og fyrirtæki til lögreglu. Í hvaða öðru vestrænu ríki þekkist það að fréttamenn gangi á milli ríkisstofnana til að hvetja þær til að hefja rannsóknir á fyrirtækjum úti í bæ? Hvers vegna vísaði sami fréttamaður ítrekað til „skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs“ í áðurnefndum Kastljósþætti um Samherja þegar um var að ræða brotakennd gögn, Excel-skjal, án efnislegrar niðurstöðu? Hvers vegna bar sami fréttamaður ekki efni fréttarinnar undir Samherja áður en hann flutti alvarlegar ásakanir um lögbrot í sjónvarpinu? Myndu einhverjir heiðarlegir blaðamenn verja slík vinnubrögð og telja þau forsvaranleg? Hvers vegna sýna menn ekki snefil af auðmýkt, svona einu sinni, og viðurkenna að Ríkisútvarpið gekk of langt með umfjöllun sinni um Samherja?

Það er býsna áhugavert að Svavar Halldórsson hafi stungið niður penna til að verja kollega sína á Ríkisútvarpinu og forðist efnislega umræðu um vinnubrögð þeirra eins og heitan eldinn. Því Svavar var sjálfur dæmdur fyrir meiðyrði vegna fréttar sem hann gerði um Jón Ásgeir Jóhannesson í kvöldfréttum RÚV. Það er ástæða til að rifja upp niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 69/2012. Þar segir:

„Hefur stefndi engin gögn lagt fram um að tilgreind ummæli um áfrýjanda eigi við rök að styðjast og verður hann að bera hallann af því, en það stóð honum nær en áfrýjanda að tryggja sér slíka sönnun. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að hann hafi við vinnslu fréttarinnar leitað eftir upplýsingum frá áfrýjanda um efni hennar. Gætti hann því ekki þeirrar skyldu sem fram kemur í 2. gr. reglna um fréttir og dagskrárefni tengt þeim í Ríkisútvarpinu frá 1. maí 2008 að leita „ ... upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og leitast við að kynna sjónarmið þeirra sem jafnast.“ Getur stefndi því ekki talist hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra ummæla um áfrýjanda sem í fréttinni fólust. Að þessu virtu verður fallist á kröfu áfrýjanda um ómerkingu tilvitnaðra ummæla með vísan til 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga.“

Svavar Halldórsson var í vondri trú þegar hann gerði frétt sína um Jón Ásgeir, eins og kemur fram í dómi Hæstaréttar. Rétt eins og fréttamenn Kastljóss voru í vondri trú þegar þeir gerðu þáttinn um Samherja. Það kemur kannski ekki á óvart að fréttamaður sem var dæmdur fyrir meiðyrði skuli koma kollegum sínum, sem gerast sekir um jafn óvönduð vinnubrögð, til varnar.

Höfundur er skipstjóri hjá Samherja hf.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×